151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

losun gróðurhúsalofttegunda.

[14:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Þær tölur sem hér eru kynntar falla undir skuldbindingar okkar vegna Kyoto-samkomulagsins. Í nokkurn tíma hefur verið ljóst að við munum ekki að fullu leyti ná að vera innan þess ramma sem okkur er skipaður þar, því miður. Það hefur margoft komið fram, bæði hér á Alþingi og víðar. Það er vegna þess að þau stjórnvöld sem voru hér við völd á undan þeim stjórnvöldum sem eru núna gripu ekki nægjanlega hratt og ekki nægjanlega fast til aðgerða sem annars hefðu mögulega gert það að verkum að við hefðum staðið við skuldbindingar okkar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Síðan er það Parísarsamkomulagið, sem er 2021–2030, þar sem við getum ekki séð annað af okkar áætlunum en að við munum standa við þær skuldbindingar. Það tekur tíma að beygja af þeirri braut sem við höfum verið á (Forseti hringir.) og inn á þá braut sem við þurfum að vera á. Ég tel að við séum búin að taka stefnuna í rétta átt núna og beygjan er hafin.