151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum og fleiri lögum sem varða þau mál. Frumvarpið tekur til allmargra þátta og er samið að frumkvæði dómsmálaráðherra en í samráði við þá aðila og þær stofnanir sem að þessum málum koma. Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar er eins og gengur og gerist rakið hvaða umsagnir nefndin fékk og hvaða gestir komu á fundi nefndarinnar. Almennt var um það að ræða að frumvarpið fékk góðar móttökur og atriði í því voru ekki sérstaklega umdeild. Við tiltökum sérstaklega í umfjöllun okkar að við meðferð málsins fjölluðum við nokkuð um persónuverndarsjónarmið og heimildir lögreglu til að skiptast á upplýsingum við aðra aðila, bæði stofnanir, stjórnvöld, félagasamtök og einkaaðila sem lögreglan þarf að eiga samskipti við og við svörum ákveðnum vangaveltum sem upp hafa komið í þessari umfjöllun. Í ljósi umfjöllunar sem átti sér stað í nefndinni tökum við líka aðeins á hlutverki eftirlitsnefndar með störfum lögreglu sem er tiltölulega ný en hefur mjög mikilvægt hlutverk. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á hlutverki eftirlitsnefndarinnar samkvæmt frumvarpinu en við áréttum að lögreglan, lögreglustjóraembættin, saksóknarar og aðrir hafa mjög ríkar skyldur til að útvega eftirlitsnefndinni þær upplýsingar sem hún kallar eftir og máli skipta varðandi þær athuganir sem hún hefur með höndum. Við segjum um það efni í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að skv. 6. mgr. 8. gr. frumvarpsins yrði texti 5. mgr. 35. gr. lögreglulaga óbreyttur frá því sem nú er og telur ákvæðið vera skýrt um afhendingarskyldu embættanna. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að nefndin geti sinnt starfsskyldum sínum og fái þær upplýsingar sem hún þarf. Í þessu samhengi telur meiri hlutinn mikilvægt að embættin sem í hlut eiga séu meðvituð um hlutverk nefndarinnar.“ — Þá er auðvitað verið að vísa til eftirlitsnefndarinnar.

Þetta telur nefndin skipta töluverðu máli þó að ekki sé gert ráð fyrir að þetta atriði breytist við afgreiðslu þessa frumvarps.

Við gerum síðan nokkrar breytingartillögur sem eru tilteknar í nefndarálitinu. Í fyrsta lagi er talað um framsetningu sem lýtur að því að um ákvæði sem varða samvinnu lögreglu við önnur stjórnvöld, stofnanir og félagasamtök sé fjallað í einni málsgrein. Í öðru lagi er vikið að samskiptum eða samstarfi við erlend lögregluyfirvöld og er þá vísað til heimilda erlendra lögreglumanna til starfa hérlendis; það er verið að árétta í nefndarálitinu að heimilt sé að taka á móti erlendum lögreglumönnum en alltaf á forsendum íslenskra yfirvalda hverju sinni. Síðan er fjallað um upplýsingaskipti gagnvart erlendum aðilum og meðferð kærumála á hendur starfsmönnum lögreglu. Gert er ráð fyrir lítils háttar breytingu í þeim efnum og svo gerum við auðvitað eðlilega breytingu sem varðar gildistöku í ljósi þess að upphaflega var gert ráð fyrir að frumvarpið öðlaðist gildi 1. janúar 2021 en sá tími er liðinn; við leggjum til þá breytingu að lögin öðlist gildi þegar við birtingu.

Fleira ætlaði ég ekki að nefna í þessu sambandi. Málið fékk ágæta umfjöllun á vettvangi nefndarinnar og var til þess að gera gott samkomulag um þær breytingar sem frumvarpið felur í sér og lagðar eru til. Þær breytingar sem gerðar eru eða lagðar eru til af hálfu nefndarinnar eru tæknilegar frekar en að þær feli í sér nokkra sérstakra efnisbreytingu.