151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég játa það að ég man ekki nákvæmlega að hvaða leyti vísað var til Danmerkur í umfjöllun nefndarinnar um þetta atriði. Hins vegar er um það að ræða að með ákvæðum frumvarpsins er verið að innleiða ákveðna þætti svokallaðs Prüm-samkomulags sem snýst um samstarf lögregluyfirvalda í Evrópu, einkum í baráttunni gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Það hefur verið talið að til að innleiða þetta Prüm-samkomulag fullkomlega þyrfti að fara í ákveðnar lagabreytingar hér sem fælu í sér að ríkislögreglustjóri gæti undir ákveðnum kringumstæðum ákveðið að erlendir lögreglumenn geti farið með lögregluvald hér á landi, annaðhvort ríkislögreglustjóri beint eða aðrir lögreglustjórar að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra eins og það er orðað. Ég held að það atriði hafi ekki verið umdeilt hjá okkur, ef ég man rétt, og ég held að það geti átt rétt á sér og verið mikilvægt undir einhverjum kringumstæðum. En það sem er hins vegar tryggt í þessu er að forræði og ákvörðunarvald um það hvort slíkt leyfi sé veitt verði alltaf í höndum íslenskra stjórnvalda og þá einkum ríkislögreglustjóra.