151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að árétta þetta og koma inn á þennan mikilvæga þátt í frumvarpinu. Hv. þingmaður nefndi þarna sérstaklega ríkislögreglustjóra og að hann veiti slíka heimild. Ég hefði nú talið, og nefndi það í ræðu minni, að æskilegra hefði verið að það væri á höndum dómsmálaráðherra. Að sjálfsögðu verður þetta alltaf á forræði íslenskra stjórnvalda, ég geri mér alveg grein fyrir því. En þetta er bara viðkvæmt málefni og framkvæmdin er með öðrum hætti í Danmörku og Noregi eins og ég fór yfir hér áðan, þannig að það er mitt innlegg inn í þessa umræðu að þetta sé á forræði æðsta yfirmanns lögreglunnar, það hefði ég talið að væri æskilegt, sem í þessu tilfelli er dómsmálaráðherra. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skerpa á þessu hér og fyrir þá sem á hlýða er textinn ágætur að þessu leyti en menn geta deilt um það hvort þetta ætti kannski ekki að vera á forræði dómsmálaráðherra. Það er mín skoðun.