151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla í upphafi að vísa til þess sem ég hef áður sagt um að það er skýrt að það er á forsendum íslenskra lögregluyfirvalda ef erlendir lögreglumenn fá lögregluvald hér og íslensk lög sem gilda um það. Ég deili því ekki áhyggjum af þeim þætti sérstaklega. Varðandi eftirlitsnefnd með störfum lögreglu tek ég undir sjónarmið sem hafa komið hér fram í umræðum um það efni. Ég tel að mikilvægt sé að sú nefnd, sem er í rauninni bara nokkurra ára gömul, fái þá stöðu að hún þurfi ekki, eins og kannski mátti ráða af orðum nefndarmanna í henni, að hafa mikið fyrir því að fá sjálfsagðar upplýsingar frá embættum heldur að það sé bara eðlilegur partur af samskiptum eftirlitsnefndarinnar og einstakra embætta að afhenda allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru og kallað er eftir til að leiða hið rétta í ljós um málsatvik og annað sem skiptir máli. Ég held að eftirlitsnefndin hafi gríðarlega mikilvægt hlutverk og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir lögregluyfirvöld að eftirlitsnefnd sé til staðar og að ekki leiki neinn vafi á um það að hún geti sinnt eftirlitshlutverki sínu með góðum hætti. Ég held að það leiði til þess að traust á lögreglu aukist, traust á eftirlitsnefndinni aukist og traust almennings á því að kerfið virki eins og það á að virka, að þetta styrki það.

Varðandi önnur sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni ætlaði ég bara að nefna að hér er auðvitað ekki um að ræða neina heildarendurskoðun á lögreglulögunum. Hér er um að ræða endurskoðun á tilteknum þáttum lögreglulaganna. En eins og vísað er í í greinargerð með upprunalegu frumvarpi er auðvitað verið að fjalla um fleiri þætti sem snerta lögreglulögin og hér er, eins og maður segir, bara um að ræða skref í þá átt að breyta og bæta starfsumhverfi lögreglunnar hvað lagaumhverfið varðar.