151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:28]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Er munur á innviðaþjónustu á landsbyggðinni miðað við Stór-Reykjavíkursvæðið? Er Stór-Reykjavíkursvæðið á hærra plani en landsbyggðin hvað það varðar? Þessi spurning hefur komið upp í huga minn og í þessu tilfelli er ég að tala um afgreiðslu eða afhendingu á heitu vatni. Þannig er að í nokkur ár hefur verið í undirbúningi bygging á þangverksmiðju á Snæfellsnesi, nánar til tekið í Stykkishólmi. Farið hafa fram gríðarlegar rannsóknir á þangi og þara, á stofnstærð og hvað hægt er að taka, og það eru aðilar tilbúnir til að reisa slíka verksmiðju þarna á svæðinu og allt klárt hvað það varðar. Það er nóg til af rafmagni en það vantar heitt vatn. Þessi spurning kom upp í huga mér vegna þess að fram hefur farið einhvers konar störukeppni nú í eitt til tvö ár þar sem þeir sem eiga að veita þessa þjónustu, það eru Veitur að þessu sinni, hafa ekki trú á verkefninu. Þess vegna spyr ég: Er munur á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu? Mér er sagt að ef þetta væri hér á höfuðborgarsvæðinu þá væri þetta ekkert mál. Hverjar eru skyldur slíkra aðila í svona verkefni? Það er búið að sýna fram á að þetta er fyrirtæki sem er mjög stöndugt. Um er að ræða fullvinnslu á þangi til lyfja og smyrsla og í alls kyns úrvinnslu. Þetta skapar 20–25 hálaunastörf og þar fram eftir götunum. Þetta er stórmál fyrir svæði eins og þarna vestur á Snæfellsnesi, í Stykkishólmi, og því spyr ég: Hver er skylda fyrirtækis eins og Veitna í þjónustu við slíka uppbyggingu?