151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

efnahagsmál.

[14:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni, fyrir að vekja máls á því hvernig við ætlum að beita hagstjórninni, ég kýs að skilja umræðuna þannig, hvernig beita þurfi hagstjórninni og samfélaginu til að komast standandi út úr þessari kreppu. Ég tek undir það sem komið hefur fram í umræðunni fyrr í dag, að verkefnið hlýtur að vera að beita hagstjórninni þannig að við náum tökum á atvinnuleysinu og þær þúsundir atvinnuleitenda, sem í dag sjá ekki fram á að vera með vinnu á næstunni, fái tækifæri til að beita kröftum sínum í þágu sjálfra sín og þá hagkerfisins alls þegar léttir til á vinnumarkaði. En ég tel að við megum ekki gleyma því að kreppa eins og þessi getur líka verið tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Við eigum að hugleiða það hvaða grænu lausnir geta leitt okkur áfram á veginn, í hvaða grænum lausnum og hvaða grænu nýsköpun, til að mynda, hagkerfið okkar getur fundið leiðir. Ein þessara leiða er verkefni eins og Carbfix, sem mörg okkar hafa kynnt sér. Þar er verkefni á ferðinni sem gæti skapað a.m.k. tugi ef ekki hundruð starfa þegar fram líða stundir, á grænum forsendum, og er, enn sem komið a.m.k., á forsendum opinberra aðila að stærstum hluta til. Við komumst út úr kreppunni með samstilltu átaki almennings, stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. (Forseti hringir.) Þar eiga grænar lausnir að vera áberandi, og nýsköpun og sókn í velferðarmálum. Þannig verður Ísland áfram gott samfélag fyrir okkur öll.