151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

efnahagsmál.

[14:17]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hér fer fram mjög gagnleg og góð umræða um miklar áskoranir fram undan í efnahagsmálum á viðkvæmum tíma. Markmið hagstjórnar eru ávallt full atvinna, hagvöxtur og stöðugt verðlag. Verkefnið fram undan er óhjákvæmilega að horfast í augu við þau fórnarskipti sem eru á milli verðlags og atvinnustigs, á milli efnahagslegs stöðugleika og sjálfbærni ríkisfjármála. Gera má ráð fyrir því að eftirspurn eftir starfsfólki aukist hratt á komandi mánuðum þegar ferðaþjónustan tekur við sér og framtíðarverkefnið þá er að sætta sig ekki við hærra jafnvægisatvinnuleysi en við eigum að venjast. Á sama tíma verðum við að beita öllum ráðum til að halda verðlagi stöðugu og verja kaupmáttinn. Auðvitað vegur gengið þungt í þessu. Á síðasta ári þegar hagkerfið tók þennan mikla skell með tilheyrandi afleiðingum og veikingu krónunnar voru viðbrögð Seðlabankans með reglulegri gjaldeyrissölu mjög sterk og studdu við gengið. Þannig beitum við tækjunum rétt. Nú hefur bankinn lýst því yfir að það sé ekki frekari þörf á þessu enda líkur á innflæði með komu ferðamanna og þá frekari styrkingu krónunnar. Með þessum hætti, virðulegi forseti, verðum við að beita tækjunum og þetta verður jafnvægislist. Verkefnið er að halda efnahagslegum stöðugleika, verja kaupmáttinn. Þetta verður jafnvægislist á næstu misserum.

Varðandi fastgengishugleiðingar þá vil ég vísa í skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu þar sem vitnað er í orð seðlabankastjóra, með leyfi forseta:

„Hins vegar féll þetta fastgengi“ — þetta var 1989 — „með sama hætti og allar festingar á krónunni hafa gert með of mikilli aukningu eftirspurnar er braust fram með innflutningi og miklum viðskiptahalla. Það leiddi að lokum til þess að gjaldeyrissjóðir landsins tæmdust, grípa varð annaðhvort til gengisfellingar eða hafta …“ (Forseti hringir.)

Ég get ekki stutt þá sýn að við förum að festa gengið (Forseti hringir.) og spegla einhvern annan veruleika en íslenskt efnahagslíf.