151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:12]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég stökk hér niður þar sem ég heyrði hv. þingmann fjalla um innflytjendur og íslensku. Það er ekki svo langt síðan gerð var rannsókn við Háskólann á Akureyri sem varpar einmitt ljósi á það að við stöndum okkur mjög illa við að aðstoða innflytjendur við íslenskunám. Staðan er svo slæm að mig minnir, og nú er ég ekki með tölurnar af því að ég var að drífa mig, að það séu um 80% þeirra sem segja að það skipti ekki máli hvort þau sæki nám í íslensku eða ekki. Þess vegna langaði mig að fá hugmyndir hv. þingmanns um það hvernig við getum staðið okkur betur í því að standa fyrir gæði — ég tala um gæði í þessu sambandi, gæðakennslu í íslensku tungumáli. Hvort hv. þingmanni finnist jafnvel að við eigum að gera kröfu um að innflytjendur taki próf í íslensku eins og þekkist í öðrum löndum. Ég nefni sérstaklega þetta próf vegna þess að það er eitt af þeim atriðum sem koma fram í þessari rannsókn, að innflytjendur sjálfir myndu vilja að þeir þyrftu að standast einhvers konar gæðakröfur, ef við getum sagt það þannig, vegna þess að með því yrði þeim tryggð góð kennsla. Það er sá punktur sem ég er að tala um.