151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að leiðrétta, því að það kom fram misskilningur. Ég var langt í frá að segja að hér þyrfti að vera til staðar kennsla í tungumálinu áður en hægt væri að setja kvaðir á stofnanir um að veita aðstoð. (Gripið fram í.) Ég var að svara því að til þess að geta sett þær kvaðir á innflytjendur að þeir þyrftu að læra íslensku til að fá aðstoð stofnana þyrfti kennslan að vera til staðar. En fyrst og fremst þarf að tryggja þessa kennslu og aðgengi að henni ef fara á að ræða að setja það í eitthvert samhengi við veitta þjónustu. Það var punkturinn, bara svo það sé algjörlega skýrt. Ég þekki að það hefur verið gert erlendis, að þegar um innflytjendur er að ræða sem eru með stöðu flóttamanns eða kvótaflóttamanns og fá slíka aðstoð þá er þeim samtímis boðið upp á þessa kennslu, sem ég veit svo sem að er til staðar hérna líka en er kannski ekki jafn ítarleg og við viljum vera láta.

Varðandi þær tillögur sem þingmaður nefndi og hún hefur lagt fram til úrbóta í þjónustu við flóttafólk, þá er í því máli sem við ræðum nú — ég get ekki túlkað það öðruvísi en svo að flokkurinn sem hv. þingmaður tilheyrir sé eindregið á móti þessu máli — einmitt verið að tala um að bæta úr til að mynda varðandi fatlað flóttafólk og tryggja þjónustu við það. Þannig að það er verið að taka á þessu máli. Aðrar hugmyndir sem hv. þingmaður viðrar sem væru til þess að bæta þjónustu við tiltekna hópa flóttafólks eru akkúrat mál sem ættu erindi hér og hefði jafnvel verið gaman að sjá sem breytingartillögu við þetta tiltekna mál og sem verkefni sem Fjölmenningarsetur gæti tekið að sér. Ég tel reyndar að það að vera hér almennt með samræmingu þjónustu, ráðgjöf og samskipti við sveitarfélögin, um hvernig best verði hægt að haga þessari þjónustu, feli í sér þessa þætti, þannig að mér þætti mjög áhugavert að sjá þá hluti (Forseti hringir.) tvinnast þar saman og þessi atriði koma þar inn í, vegna þess að ég er sammála hv. þingmanni um að það skiptir máli að hafa þá hluti í lagi.