151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða útlendingamál í almennum skilningi heyrist mér, sér í lagi málefni hælisleitenda og flóttamanna. Ég setti mig á mælendaskrá í þeim megintilgangi að svara í nógu góðu máli eða nógu löngu máli, skulum við segja, ræðu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar frá því í gær og kannski andsvörum sem hér komu áðan. Ég er að reyna mitt besta til að skilja málflutning Miðflokksmanna á sem jákvæðastan hátt, að þeim gangi gott eitt til. Ef ég hef val um það að skilja orð þeirra þannig að þeim gangi eitthvað illt til eða þannig að þeim gangi eitthvað gott til þá ætla ég að velja að gera ráð fyrir því að þeim gangi gott til.

Ágreiningurinn sem ég á við Miðflokkinn í þessum málaflokki er kannski vegna þess að við lítum öðruvísi á lausnirnar í grundvallaratriðum. Upp á síðkastið, í gær og í dag, hef ég svolítið verið að velta fyrir mér nákvæmlega hver vandinn sé sem Miðflokksmenn benda sífellt á. Og hvers vegna ætti það nú að rugla mann í ríminu? Hvers vegna hlustar maður ekki bara á ræðurnar? Ég gerði það, virðulegi forseti, og geri það almennt. Ég heyrði reyndar ekki ræðu hv. formanns flokksins áðan en ég heyrði ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar og hlýði á hann almennt af mikilli athygli þegar kemur að þessum málaflokki, ég reyni það alla vega. En ástæðan fyrir því að mér finnst erfitt að hlusta einfaldlega á þessar ræður og draga þannig ályktanir um hvað þeim gangi til er að mér finnst eitthvað vanta. Það er eitthvað sem stenst ekki í málflutningi Miðflokksins í þessu máli. Kannski er það tengt því sem stundum er kvartað yfir úr þeirri átt, kannski stundum með réttu, að þeir geti ekki tjáð sig, það séu ákveðnir hlutir sem megi ekki tjá sig um í íslensku samfélagi. Það er nú ekki bara í þessum málaflokki, það er bara í íslenskri orðræðu almennt að mínu mati, það eru afskaplega ríkir þöggunartilburðir úr öllum áttum og við öll tilefni. Það er óháð útlendingamálum sérstaklega að mínu viti, en viðgengst þar vitaskuld eins og annars staðar og það væri undantekning ef svo væri ekki.

Í samtali mínu áðan við hv. þm. Birgi Þórarinsson var ég aðeins að reyna að spyrja út í það hvert vandamálið væri. Hv. þingmenn nefna tölur eins og þær að á síðasta ári höfum við samþykkt 631 hælisleitanda til Íslands, að hælisleitendakerfið kosti um 4 milljarða eða 4,5 milljarða á ári, einhvers staðar á því bili, vænti ég, sem er auðvitað mjög há upphæð. Ég vænti þess að það sé út frá þessum tölum sem reikningurinn hljóðar upp á 6 millj. kr. á haus. Nú er freistandi að fara aðeins út í þá tölu vegna þess að 6 milljónir í eitt ár á hvern haus er kannski ekki mikill peningur fyrir nýjan einstakling í samfélaginu og ég hygg að það kosti miklu meira að koma nýju barni til fullorðinnar manneskju, öll menntunin, heilbrigðisþjónustan, umönnun sem þarf, vinnutap foreldra og guð má vita hvað. En það er fjárfesting að mínu viti. Það er ljóst að þessir 4 milljarðar eru ekki að sliga íslenska ríkið. Það er bara staðreynd. Ef hv. þingmenn eru ósammála því þá skulum við fara að ræða hvað það er skrýtið og óvenjulegt að vera með milljarða ofan á milljarða, mig minnir að það hafi verið 6,5 milljarðar seinast, sem fara í þjóðkirkjuna á Íslandi. Ágæt stofnun og allt það, en það er óvenjulegt að vera með ríkiskirkju á fjárlögum, virðulegur forseti. Er íslenska ríkið að sligast út af henni? Varla. Þannig að mér finnst ekki sannfærandi að það sé kostnaðurinn sem hv. þingmenn hafa svona miklar áhyggjur af. Er það fjöldinn? 631 manns, það fæddust 4.500 manns á Íslandi í fyrra. Er það eitthvað of mikið fyrir íslenska kerfið? Nei. 631 manns, virðulegi forseti, er einfaldlega ekki há tala. Við ráðum mjög léttilega við þá tölu. Ef við gleymum aðeins þessum 4 milljörðum og látum eins og þetta væru Pólverjar, Grikkir, Ítalir, Frakkar eða einhverjir aðrir, einhverjir Evrópubúar, þá væri enginn að kvarta undan því að það kæmu 630 innflytjendur á ári. Eða er það, virðulegur forseti? Væri því ekki fagnað? Er ekki vandinn miklu frekar sá að við erum of fá á Íslandi? Ég hygg að svo sé. Mér finnst ekki sannfærandi að það sé fjöldinn, mér finnst ekki sannfærandi að það sé kostnaðurinn sem hv. þingmenn hafa áhyggjur af. Hafa þeir áhyggjur af auknu atvinnuleysi eða því að velferðarkerfið fari í steik?

Virðulegi forseti. Hælisleitendur og flóttamenn eru eins og aðrir innflytjendur. Þeir eru alls konar. Við höfum svolítið mikið um það að segja sjálf á hvaða braut fólk ratar þegar það kemur hingað inn í nýtt samfélag. Ég kem að því síðar vegna þess að ég er að reyna að finna einhvern punkt þar sem ég og hv. þingmenn Miðflokksins getum sameinast um eitthvað. Mér hefur reynst það erfitt, en ég ætla aðeins út í það á eftir ef ég hef tíma. Það var svo glæsilega sagt einhvern tímann að útlendingar væru svo merkilegt fólk að þeir gætu einhvern veginn þurrausið alla atvinnuna en samt legið bara á kerfinu og gert ekki neitt á sama tíma. Sú speki endurspeglast í því að það er eiginlega alveg sama hvað útlendingur gerir. Hann er alltaf annaðhvort að stela vinnunni eða að leggjast á velferðarkerfið samkvæmt orðræðu úr íhaldsáttinni alla vega. Mótsögnin ætti að vera augljós. Getur verið að málið sé ekki ótti við offjölgun á Íslandi, ekki við að íslenska ríkið færi í klessu út af þessum tilteknu milljörðum, ekki áhyggjur af velferðarkerfinu og atvinnuleysinu heldur því hvernig fólk þetta sé, hvernig fólk hælisleitendur séu?

Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar í gær að hann vísaði mikið í danska jafnaðarmenn sem hann hefur mikið dálæti á þessa dagana og sér í lagi utanríkisstefnu þeirra eða talar alla vega ofboðslega mikið um hana. Þar fjallaði hann m.a. um áætlun sem ég hef ekki lesið frá toppi til táar en ég las grein, ég bý nefnilega yfir þeim sérstöku forréttindum að geta lesið dönsku, sló til og lærði dönsku um daginn, og las þessa grein sem heitir „Den nye frihedskamp“ eða nýja frelsisbaráttan, nýja sjálfstæðisbaráttan. Og þá varð þetta allt í einu skýrt fyrir mér, virðulegur forseti. Það rímar svolítið við áhyggjurnar sem rötuðu í ræðu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar í gær um sundrungu í samfélaginu. Það er ekkert ný orðræða. Hún kom ekki til vegna þess að múslimar yrðu áberandi á Vesturlöndum. Sú orðræða er miklu eldri. Hún er reyndar mörg hundruð ára gömul, fjallaði þá að vísu ekki um múslima heldur annan trúarhóp. Ég skal spara hv. þingmönnum sögukennslu um það en það var sama orðræða; útlenskur hópur með skrýtna trú, fjandsamlegar trúarsetningar og trúarkenningar sem samræmast ekki samfélaginu okkar, virðulegi forseti. Það er alla vega það sem algerlega skín í gegn í þessari grein sem hv. þingmaður nefndi hér í gær, að því gefnu að við séum að tala um sama plaggið, í þeirri grein sem ég las eftir danskra sósíaldemókrata og heitir „Den nye frihedskamp“.

Nú er auðvelt að benda á að í þessu felast ákveðnir fordómar. Það er augljóst og auðvelt. Ef hv. þingmenn móðgast yfir því þá verða þeir bara að eiga það við sína samvisku. En ég ætla að reyna að tala hér aðeins í friði eftir því sem það er hægt. Ég skil nefnilega alveg áhyggjur af því að lýðræðisgildum í samfélaginu hnigni. Ég hef bara meiri áhyggjur af því að hægri íhaldsöfl stuðli að því heldur en múslimar. Hvort sem það er á danska þinginu eða ungverska eða pólska eða gríska þá eru það ekki múslimar þar í meiri hluta að rífa niður frjálslynd lýðræðisgildi, virðulegi forseti. Það eru hægri íhaldsmenn sem eru að því og þeir eru við völd víða í Evrópu. Ég hef áhyggjur af því. Það er eitthvað sem blasir við í dag.

Ef hér væri stór hópur wahhabista — fyrir þau sem ekki vita er wahhabismi trúartúlkun á íslam sem ræður ríkjum í Sádi-Arabíu og hinu svokallaða ríki íslams eða ISIS, eins íhaldssöm trúarkenning og hún getur orðið. Hún snýst bara um að túlka íslam eins og spámaðurinn Múhameð gerði — As-salaamu 'alaa kulli in-naas — og það er agaleg stjórnmálaspeki, algerlega hræðileg. Ég ætla að segja það hér þótt það gæti hljómað hrokafullt: Það er enginn flokkur á Alþingi sem berst jafn mikið gegn hnignun þeirra frjálslyndu lýðræðisgilda eins og Píratar. Hér um árið þá ætlaði trúarhópur, agnarsmár, á Íslandi að byggja sér mosku. Við þessu urðu mikil og sterk viðbrögð í samfélaginu, jafnvel stungið upp á þjóðaratkvæðagreiðslu um það. Ég er reyndar með þingmál sem er ætlað að draga úr þessum spenningi með því að afnema þá fáránlegu klausu í lögum að sveitarfélögum sé skylt að gefa trúfélögum lóðir. Það er svo sem önnur saga. En það voru ekki Píratar sem vildu þá mismuna fólki á grundvelli trúar eins og er gert í Sádi-Arabíu. Það voru íhaldsmenn sem vildu það. Það voru íhaldsmenn sem vildu ekki byggja mosku en allt í lagi að byggja kirkjur. Þannig er það í Sádi-Arabíu líka. Þar má ekki byggja kirkjur en það má byggja moskur. Þar ríkir íhaldssemi, sú staðbundna íhaldssemi sem er íslam en ekki kristni. Þegar talað er um að Ísland sé kristið samfélag, eins og talað er um í Sádi-Arabíu að það sé íslamskt samfélag, þá finnst mér það fáránlegt, virðulegur forseti. Samfélög eru ekki einhverrar trúar. Samfélög eru samansafn af einstaklingum og einstaklingar geta haft alls konar trú. Eflaust getur einhver meiri hluti verið sammála um trúarkenningu en það þýðir ekki að samfélagið sé kristið eða íslamskt eða guðlaust. Það er fáránleg hugmynd. Og hvaðan heyrum við þetta, að samfélagið sé þessarar trúar eða hinnar? Í Sádi-Arabíu og frá íhaldsmönnum. Það kemur ekki frá Pírötum, ekki frá sósíaldemókrötum á Íslandi heldur. Eða þegar kemur að því að hafa sérstaka ríkistrú, sem mér finnst fáránlegt, og hvaðan kemur stuðningur við að hafa sérstaka ríkistrú eða ríkiskirkju? Sádi-Arabíu og frá íhaldsmönnum, ekki frá Pírötum.

Þegar kemur að því að afnema einhver fáránleg lög eins og guðlastslögin sem voru hér, 125. gr. almennra hegningarlaga, það fáránlega ákvæði sem við blessunarlega fjarlægðum að frumkvæði þess sem hér stendur, þá voru það ekki íhaldsmenn sem vildu fjarlæga það, það voru íhaldsmenn sem höfðu sínar efasemdir um að það væri góð hugmynd að fjarlæga það. Það gæti verið mikilvægt að hafa guðlast bannað — eins og í Sádi-Arabíu. Það er reyndar dauðadómur við því þar, kannski ekki sanngjarn samanburður en það eru ekki Píratar sem vilja taka upp stjórnarfarið í Sádi-Arabíu, virðulegi forseti. Það eru ekki Píratar sem koma hingað og vilja setja á íslamskt stjórnkerfi eða vilja sjá hnignun frjálslyndra lýðræðissjónarmiða eða frjálslynds lýðræðiskerfis. Við erum að standa vörð um það. Við erum að standa vörð um það gegn íhaldsmönnum. Þannig að ef þeir vilja standa vörð um frjálslynd lýðræðisgildi: Velkomnir. Takið þátt í því með okkur og hættið að kalla eftir því að ríki og einhver kirkja séu samtvinnuð. Hættið að tala um að samfélagið sé þessarar eða hinnar trúarinnar. Stígið bara sjálfir aðeins inn í nútímann og farið síðan að predika um áhyggjur okkar af því að einhver erlend gildi séu ekki í samræmi við okkar frjálslyndu lýðræðisgildi.

Þegar kemur að réttindum kvenna, voru það íslenskir kristnir íhaldsmenn sem komu þeim á? Nei, virðulegi forseti. Það dregst á langinn helst út af þeim, bæði sögulega og í dag. Eða þegar kemur að því að viðurkenna kynfrelsi, t.d. samkynhneigð, þá eru það ekki kristnir íslenskir íhaldsmenn sem leiða vagninn. Það eru þeir sem halda aftur af honum og hafa gert sögulega. Eða það að viðurkenna hjónaband samkynhneigðra. Það eru ekki íslenskir íhaldsmenn sem hafa staðið vörð um þann rétt samkynhneigðra eða annars fólks, þeir hafa haldið aftur af þeirri þróun. Þessi þróun í átt að betra frjálslyndara lýðræðissamfélagi hefur átt sér stað þrátt fyrir baráttu íhaldsmanna á Íslandi en ekki vegna hennar. Þannig að þegar þeir vara við því að hingað komi erlent fólk sem einhvern veginn geti storkað okkar frjálslyndu lýðræðisgildum mættu þeir byrja á því að stíga sjálfir inn í baráttuna og byrja að berjast fyrir frjálslyndum lýðræðisgildum sjálfir.

Ég ítreka að hér er ég að fara eftir því sem ég heyrði í ræðu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar í gær og í greininni sem ég las. Ég heyri alveg orðin, ég vona að ég hafi rangt fyrir mér. Kannski koma hv. þingmenn í pontu og gefa mér einhverja aðra skýringu og við tökum það samtal. En ég verð eiginlega að nefna, eins óviðeigandi og mér finnst það, í sambandi við íslamska kennisetningu sérstaklega og trúarkennisetningar reyndar almennt en sér í lagi íslam, að sá sem hér stendur er ekki bara búinn að lesa eitthvert femínista „woke“ blogg til að komist að sinni niðurstöðu um hver íslömsk kennisetning sé eða hvaða skoðanir ríkja í samfélagi múslima, heldur með því að tala við múslima um íslam, um stjórnmál, mjög mörg samtöl, bæði við einstaklinga og hópa yfir mjög langt tímabil. Ég dundaði mér við það að stúdera klassíska arabísku á sínum tíma, orðin frekar ryðguð núna að vísu, en ég hef raunverulegan og mikinn persónulegan áhuga á trúarbrögðum, sér í lagi íslam og hef haft árum saman og ég veit alveg hvað ég er að tala um. Ég get alveg farið í rökræður við múslima um það hvort það eigi að höggva hendur af þjófum eða hvort það sé einhver heil hugsun í erfðalögum í íslamskri kennisetningu. Svo er ekki, meðan ég man, það er ekki heil brú í því. En áður en ég kemst í það samtal, sem ég er alveg reiðubúinn til að eiga við múslima sem eru íhaldsmenn, þá hef ég meiri áhyggjur af því að kristnir, hvítir, vestrænir íhaldsmenn nái völdum og dragi úr t.d. frelsi kvenna eins og er að gerast í Póllandi. Það eru ekki róttækir múslimar sem eru að gera það, það eru Pólverjar, kristnir Pólverjar. Auðvitað þýðir það ekki að það sé eitthvað að því að vera kristinn eða annarrar trúar. Það er allt í góðu ef fólk getur alla vega vitað hverju það er að berjast fyrir og ef við erum að berjast fyrir frjálslyndum lýðræðisgildum, virðulegi forseti, tökum þá höndum saman um það. En mér þykir að íhaldsmenn þurfi þá aðeins að endurskoða hvert þeir eru að stefna.

Nú á ég ekki mikinn tíma eftir, virðulegi forseti, en ég vil nefna eitt í sambandi við trúarbrögð og hvernig samfélög þróast. Það er auðvelt að taka trúarrit og finna í því einhver vers og dæma einhvern hóp. Við eigum ekki að gera það. Það er hægt að taka Biblíuna, Nýja testamentið, og sýna fram á það að konur eigi ekki að kenna. Ég veit að þjóðkirkjan er með einhverja aðra skýringu á því, vafalaust mjög flókna, en alla vega var þetta mjög lengi skilið samkvæmt upprunalega textanum þannig að konur ættu ekki að kenna karlmönnum vegna þess að Eva lét blekkjast af snáknum, munið þið, í Eden og allt það dót. Það er í Nýja testamentinu sumsé, bara að það sé á hreinu. En samt er biskup kona. Þetta er nefnilega hægt, virðulegi forseti. Það er ekki þannig að vegna þess að við erum búin að mynda okkur einhverjar skoðanir á því hver hin eða þessi gildi séu í Kóraninum eða öðrum ritum eða almennt í einhverjum trúarbrögðum þá liti það sjálfkrafa stjórnmálaskoðanir fólks. Ég myndi segja að það sannist best á því að hér erum við með kristna þjóðkirkju, meiri hluti Íslendinga alla vega telur sig kristinn og segist vera kristinn og er það þá, en samt er enginn teljandi hópur á Íslandi, ég þekki reyndar ekki staka sálu sem raunverulega trúir því að konur eigi ekki að kenna. Hvers vegna er þetta svona, virðulegi forseti? Vegna þess að fólk er ekki trúarbrögðin sín. Það er munur á íslamskri kennisetningu, sem við gætum haft eitthvað að athuga við og ég hef mjög margt að athuga við, og múslimanum sem einstaklingi. Það að við óttumst einhver ákveðin vond gildi og aðhyllumst einhver önnur góð gildi þýðir ekki að við þurfum að mismuna fólki á grundvelli trúarsannfæringar. Við eigum ekki að gera það. Þess vegna hafna ég því að við eigum að að velta þessum málum fyrir okkur upp á þetta að gera nema þegar kemur að einhverjum jákvæðum aðgerðum sem við getum farið í, eins og t.d. Welcome to Iceland, sem var verkefni og er vonandi enn þá á vegum Rauða krossins til að kynna fólk fyrir íslenskri menningu, fyrir stjórnarháttunum, fyrir frjálslynda lýðræðinu og öllu þessu góða dóti. Við eigum að efla það. Að mínu mati ætti það reyndar að vera skylda þegar kemur að því að veita hæli eða flóttamannastuðning. Ég myndi halda að hv. þingmenn Miðflokksins væru sammála mér um það. Þá rekst ég á lokavandann sem ég vona að hv. þingmenn geti hjálpað mér með, sem er að þegar það koma tillögur eins og sú sem við erum að ræða núna þá eru þeir á móti henni. Þá eru þeir á móti leiðunum sem við þurfum að nota til að hjálpa fólki að aðlagast íslensku samfélagi. Það er ekki hægt að gera þeim til geðs, virðist vera, virðulegi forseti. Ég er alla vega mjög ringlaður yfir því og ég vona að hv. þingmenn Miðflokksins geti frætt mig eitthvað hér í andsvörum því að ég er mjög ringlaður yfir þessu öllu saman.