151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara segja að ég ræði trúmálin hér vegna þess að ég sé að þau þvælast mikið fyrir, bæði í þessum málaflokki og þeirri staðreynd að við erum með sérstaka þjóðkirkju í stjórnarskrá, en ég læt það liggja milli hluta. Ég tel mig tilneyddan til að taka þá umræðu og finnst að við þurfum að gera það ef þau eiga að vera hluti af okkar ákvarðanatöku. Ég skynja að svo sé í þessu máli sem og fleirum. Hvað varðar hina spurninguna þá þakka ég hv. þingmanni fyrir að nefna hana af því að mig langaði að halda áfram samtalinu sem við áttum seinast um þetta, hvernig best sé að kljást við þennan vanda sem ég hygg að við séum sammála um, þ.e. að allt of mikið af peningum fari í þetta kerfi. Mér finnst augljósa leiðin vera sú, að því gefnu að maður sé sáttur við það að hingað komi fleira fólk löglega og þannig að það kosti ekki mikla fjármuni, að búa til dvalarleyfi sem t.d. Albanir eða Georgíumenn geta notað til að vera hérna löglega án þess að fara í gegnum hælisleitendakerfið. Það vita það ekki mjög margir Íslendingar, virðist vera, að það er ekki til neitt almennt dvalarleyfi. Einhver sem er frá Georgíu getur ekki flutt til Íslands í dag. Það er ekkert dvalarleyfi í boði. Punktur. Nema auðvitað ef viðkomandi er sérfræðingur, svo sem með háskólamenntun sem nýtist í starfi hér, giftist Íslendingi og eitthvað svoleiðis. En sem sagt Georgíumaður sem kemur hingað til að vinna, borga skatta, til að læra íslensku, til að kenna íslensku, til að skrifa bækur á íslensku, til að efla orðstír Íslands og íslenskrar menningar út um allan heim — sá einstaklingur er óvelkominn á Íslandi í dag. Þetta fólk, eins og í tilfelli Georgíumannsins sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni fyrr, á alveg að geta rúmast innan einhvers dvalarleyfis sem við bjóðum upp á. Við þurfum þá að bjóða upp á það, og ég hygg að það væri góð viðbót. Það er alveg sjálfsagt að hafa einhver skilyrði, sakaskrá eða hvað eina sem fólk vill hafa en hafa þó einhvers konar tegund af almennu dvalarleyfi sem grundvallast ekki á sérstökum aðstæðum heldur (Forseti hringir.) bara á því að einstaklingur vilji koma hingað og búa hér. Það eru 500 milljónir manna plús (Forseti hringir.) sem mega þetta í dag, nefnilega öll Evrópa, næstum því, og ég sé ekki að það sé vandamálið, sé ekki að það sé vandamál að útbúa slíkt dvalarleyfi þannig að vel fari.