151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, þetta er athyglisverð umræða. Hv. þingmaður leggur til að fólk frá ákveðnum löndum fái bara dvalarleyfi hér og geti komið hingað og starfað o.s.frv. Nú erum við náttúrlega að glíma við heilmikið atvinnuleysi þannig að það er kannski ekki heppilegt á þessum tímum. En telur hv. þingmaður að það eitt og sér dragi úr misnotkun á kerfinu? Við áttum okkur á því að þeir sem eru að koma hingað á forsendum sem eru ekki lögmætar til að fá hér hæli, eða alþjóðlega vernd, eins og sumir kalla það, eru náttúrlega að fá hér stuðning úr ríkissjóði. Það er þá ekki að koma hingað á eigin vegum og reyna að leita sér að vinnu o.s.frv., það fær greiðslur úr ríkissjóði. Það hlýtur náttúrlega að vera aðdráttaraflið, hv. þingmaður, þ.e. að þú veist að ef þú kemur til Íslands og berð því við að þú sért ofsóttur í þínu heimalandi — og ég ætla ekki að gera lítið úr því að sjálfsagt eru mörg dæmi þess, en þess eru líka dæmi að fólk komi hingað og beri fyrir sig hluti sem eiga ekki við rök að styðjast — kemstu inn í kerfið og færð þessar greiðslur úr ríkissjóði. Það er því uppihaldið sem ríkissjóður er að borga og síðan kemur í ljós að ekki voru forsendur fyrir því að viðkomandi væri hér og honum er vísað úr landi. Þá hefur fallið til kostnaður úr ríkissjóði sem við getum að mínu mati nýtt til betri verka, þ.e. til að hjálpa þeim sem eru illa staddir á stríðshrjáðum svæðum, konum og börnum og fjölskyldum o.s.frv. Þetta hefur verið inntakið í mínum málflutningi þegar ég nefni að koma þurfi í veg fyrir misnotkun á kerfinu. Mér finnst hv. þingmaður eiginlega ekki hafa haft hugmyndir um það hvernig hægt er að stoppa þetta. (Forseti hringir.) Ef hv. þingmaður áttar sig á því hvað ég er að fara. Ég held að dvalarleyfi eitt og sér komi ekki til með að stoppa þetta eða draga úr aðdráttaraflinu (Forseti hringir.) við það að fá greiðslur úr ríkissjóði til að sjá um uppihald, húsnæði o.s.frv. Afsakið, herra forseti.