151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst stundum talað um okkur Pírata og fólk úr sömu átt í þessum málaflokki eins og við höfum verið að dásama kerfið eins og það hefur verið. Það er ekki þannig. Hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði reyndar hér fyrr í dag þingmenn hafa hlaupið upp til handa og fóta og að þeir vildu ekki breyta neinu, bara taka á móti sem flestum og væri alveg sama um kostnað o.s.frv. Þetta er bara ekki rétt, virðulegi forseti. Vissulega eigum við að læra af mistökum annarra. Við erum bara ósammála um það hver mistökin voru. Grundvallarmistökin í Evrópu almennt voru þau að þjóðríkin komu sér ekki saman um að taka á móti fólki og þau fóru frekar hvert í sínu horni, eins og orðræða Miðflokksins vitnar um, að loka meira og meira. Þá fer straumurinn eitthvert annað og það býr til ofurálag á einstök lönd af og til, eins og Svíþjóð. Lærdómurinn sem við getum dregið af því er að við eigum, í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, að reyna að taka á móti fleirum. Það er lærdómurinn.

Virðulegur forseti. Það er langt í land þar vegna þess að hérna er að gerast það sama, alla vega samkvæmt því sem heyrist frá Miðflokksmönnum, og hefur gerst í Evrópu, að það er sífellt verið að reyna að þrengja að og gera þetta erfiðara. Það leysir bara ekki vandann. Þetta er ekki lausnin. Vandinn hverfur ekki. Þetta fólk hverfur ekki. Það dvelur þarna áfram með einum eða öðrum hætti. Ef það dvelur þarna ólöglega þá dvelur það bara þarna ólöglega. Ef það neyðist til að grípa til einhverra úrræða sem eru slæm þá neyðist það út í þau úrræði sem eru slæm. Það er ekki lausn að loka sig af einhvern veginn fyrir umheiminum og vandamálum hans. Við verðum að takast á við þetta. Það getur alveg kostað peninga og vinnu og það getur alveg verið erfitt og flókið. Við þurfum í það minnsta að hafa það á hreinu hvert við ætlum að fara með þetta.

Sömuleiðis get ég alveg tekið undir það sem við komumst aldrei til að ræða, og mér finnst svo skrýtið að við séum að ræða þetta mál með andstöðu Miðflokksins vegna þess að það er alveg lykilatriði að fólk kynnist samfélaginu sem það flytur til. Það er alveg óháð því hvort það eru hælisleitendur eða einhverjir aðrir. Það skiptir bara máli að fólk skilji samfélagið sem það býr í. Og frjálslynd lýðræðisgildi eru óumsemjanleg fyrir mitt leyti. Ég ætlast til þess að fólk fylgi þeim. (Forseti hringir.) Mér finnst það vera samtal sem við getum átt. (Forseti hringir.) En við komumst ekki þangað. Miðflokkurinn virðist jafnvel vera á móti því, eins og í þessu máli, og það finnst mér svo skrýtið.

Ég er að reyna (Forseti hringir.) að skilja þetta rétt, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Og það er rétt, ég er leitandi og mun halda áfram að leita.

(Forseti (ÞorS): Forseti hefur reynt að vera þolinmóður varðandi tímanotkun þingmanna. Hann verður engu að síður að minna þingmenn á ræðutíma.)