151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frábæra ræðu enda mátti heyra saumnál detta í þingsalnum á meðan hann flutti mál sitt. En ég vil líka þakka honum fyrir að verða við áskoruninni og koma hér sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins því að þá hefur alveg vantað í þessa umræðu. En þá verð ég líka að spyrja: Er hv. þingmaður eðlilegur Sjálfstæðismaður, miðað við nýja Sjálfstæðisflokkinn? Þetta mál hefur í umræðu fyrst og fremst verið stutt af hv. þingmönnum Pírata og á það þannig sameiginlegt með t.d. frumvarpi ríkisstjórnarinnar um lögleiðingu fíkniefna að njóta stuðnings fyrst og fremst úr einhverri allt annarri átt. Því veltir maður fyrir sér hvernig á því standi að ríkisstjórnin leggi fram mál, ítrekað myndi ég segja, sem til að mynda þingflokkur Pírata getur svo státað sig af að hafa náð í gegn á næsta heimsþingi þess söfnuðar. Er hv. þingmaður e.t.v. bara undantekningin sem sannar regluna?

Við verðum að gera eitthvað, sýna einhvern dug, íslenskir stjórnmálamenn, sagði hv. þingmaður — ég er sannarlega sammála honum — og var að vísa til þessara mála. Hann hafði efasemdir um að sú yrði raunin og bætti svo við að við gætum ekki lengur boðið íslensku þjóðinni upp á dugleysi í svona málum. En hvað mun Sjálfstæðisflokkurinn gera? Mun hann sýna dug í þessu máli eða munu menn að vanda brölta í salinn og ýta á græna takkann með Vinstri grænum, Pírötum, Viðreisn, og svo mætti lengi telja?