151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða ræðu. Hv. þingmaður fór nokkrum orðum um lögin, útlendingalögin svokölluðu frá 2016, hvernig staðið hefði verið að þeirri lagasetningu og rakti efasemdir um þá þverpólitísku nálgun. Ég verð að viðurkenna að ég er sérstakur áhugamaður um að greina þessar þverpólitísku æfingar sem virðast ágerast kjörtímabil eftir kjörtímabil þar sem ráðherrar virðast telja það vera leið að því marki að múlbinda stjórnarandstöðuna, andstæðingana eða efasemdarmennina. Sjálfur tók ég upp á því að segja mig úr þverpólitískri nefnd sem skilaði skýrslu um svonefndan hálendisþjóðgarð sem ég verð að viðurkenna að ég tel bæði ótímabært og óskynsamlegt mál að reyna að keyra í gegn núna og efnisatriði málsins þeirrar gerðar að ég tel ástæðu til að það mál dagi uppi að fullu og varanlega, alla vega um fyrirsjáanlega framtíð.

Vegna umræðu um lagasetninguna 2016 — og ég fletti því upp, ég var bara búinn að gleyma því hreinlega — voru það tveir núverandi þingmenn, hv. þm. Brynjar Níelsson og hv. þm. Ásmundur Friðriksson, sem greiddu ekki atkvæði með þeim lögum. En hverju í lögunum telur hv. þm. Brynjar Níelsson mest aðkallandi að breyta og þarf það að gerast í heildarendurskoðun eða væri til að mynda frumvarp dómsmálaráðherra sem nú liggur fyrir nægjanlegur plástur í þeim efnum að mati hv. þingmanns?