151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég að hv. þingmaður fylgist vel með pólitíkinni. Ég geri ráð fyrir að þessar spurningar hafi komið fram fyrst og fremst til að gefa mér tækifæri til að ítreka það sem hv. þingmaður þekkir vonandi að miklu leyti fyrir. Miðflokkurinn hefur einmitt beitt sér töluvert í þessum málum og ekki bara gagnrýnt heldur líka bent á hvernig væri hægt að gera hlutina betur og lagt fram þingmál. Í þessari umræðu höfum við ekki síst vísað til fordæma, reynslu annarra þjóða, Norðurlandaþjóða ekki hvað síst, og hvað megi læra af þeim og bent á hvað þær þjóðir hafi lært sjálfar og hvað við getum nýtt okkur af þeirri reynslu.

Auk þess get ég tekið undir með hv. þingmanni frá því í ræðu hans hér áðan að útlendingalögin eru í rauninni ónýt. Hv. þingmaður spyr: Þarf heildarendurskoðun? Já, þau þarfnast sannarlega endurskoðunar. Ég veit ekki hvað kemur út úr endurskoðunarnefnd hv. þingmanns. Ég veit ekki hversu mikil bjartsýni hans er í þeim efnum en ég efast um, án þess að ég ætli á nokkurn hátt að hallmæla hv. þingmanni eða öðrum í þessari nefnd, að nefndin muni leysa málið vegna þess að það vantar pólitíska forystu. Það vantar pólitíska forystu í málaflokknum eins og hv. þingmaður hefur komið inn á í ræðum sínum. Íslenskir stjórnmálamenn eru almennt duglausir í þessum málaflokki, hræddir jafnvel, meira og minna allir nema hv. þingmaður og Miðflokkurinn.