151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það stendur þannig á að í Danmörku er ríkisstjórn jafnaðarmanna undir forystu frú Mette Frederiksen og ein helsta rósin í hnappagati þeirrar ríkisstjórnar er talin vera sú stefna og það frumvarp sem nú liggur fyrir danska þjóðþinginu um heimild til að flytja hælisleitendur í móttökustöð utan Evrópu. Mette Frederiksen hefur lýst því að hún telji æskilegast að það komi enginn hælisleitandi til Danmerkur. Danska ríkisstjórnin leggur þunga áherslu á frumvarpið en fram hefur komið gagnrýni á það, t.d. í umsögnum stofnana eins og Amnesty International. Því er haldið fram að stefna dönsku ríkisstjórnarinnar um heimild til að flytja hælisleitendur í móttökustöð utan Evrópu feli í sér skort á samkennd, sé ómannúðleg og taki frá fólki réttinn til að leita hælis. Ráðherra þessa málaflokks í dönsku ríkisstjórninni er jafnaðarmaðurinn Mattias Tesfaye, sem ritaði grein á vefmiðilinn altinget.dk um að þessu sé hann algjörlega ósammála. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þessa grein danska ráðherrans því að í henni felst eins konar málsvörn jafnaðarmanna gagnvart þeirri gagnrýni sem aðilar á borð við Amnesty International hafa sett fram.

Danski ráðherrann segir að almennt sé það skylda Danmerkur og annarra landa að leggja sitt af mörkum til að flóttamenn fái nauðsynleg lyf, aðgang að rennandi vatni og að börn hafi möguleika á að ganga í skóla. Á þessu berum við ábyrgð í ljósi mannúðarsjónarmiða, segir hann. Ráðherrann skilyrðir svar sitt með því að bæta við að hælisleitendur og flóttamenn eigi ekki kröfu á framtíð í vestur-evrópsku velferðarríki og hann bætir við: Við berum ekki ábyrgð á því að milljónir manna taki sér bólfestu hér. Undir slíku getur samfélag okkar ekki staðið, segir ráðherrann. Það er af þessari ástæðu sem danska jafnaðarmannaríkisstjórnin leggur til að flytja afgreiðslu hælisumsókna og vernd flóttamanna til lands utan Evrópu eða út fyrir Evrópusambandið, eins og hann orðaði það.

Með þessum orðum sýnist mega skilja að ráðherrann sé þeirrar skoðunar að velferðarkerfið þoli ekki opin eða hálfopin landamæri. En þetta virðist nú kannski vefjast fyrir sumum, verður að segja. Ráðherrann lýsir því áliti að þessar aðgerðir muni leiða til umtalsverðrar fækkunar hælisleitenda á danskri grundu og þetta spari peninga og þá verði til ráðstöfunar aukið fé til að hjálpa fleirum á heimaslóð, fleiri flóttamenn fái vernd nær heimkynnum sínum í stað þess að hætta lífi sínu á siglingu yfir Miðjarðarhafið.

Danski ráðherrann lýkur grein sinni með því að vísa á bug að tillaga ríkisstjórnarinnar beri vott um skort á samkennd. Hann rökstyður þá fullyrðingu með því að segja að meira en helmingur þeirra sem komi til Evrópu hafi ekki þörf fyrir vernd. Um þessar mundir séu í Danmörku um 1.300 hælisleitendur sem fengið hafa afsvar. Það kosti um 300.000 danskra króna á ári á hvern slíkan að halda honum uppi og senda á brott. Þetta segir ráðherrann dýrt og óviðunandi. Fjárhæðin svarar til ríflega 6 millj. kr. íslenskra. Hann segir: Við hjálpum fólki í tugþúsunda tali en það gerist handan danskra landamæra og vekur sjaldnast sömu athygli heima fyrir og hin eilífa deila um fólk sem tekist hefur að komast til Evrópu og Danmerkur og í fjölmiðla, leyfi ég mér að bæta við. Eilítil þröngsýni, segir ráðherrann í lok greinar sinnar.