151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það, ég vil búa í samfélagi þar sem má gera grín að bókstaflega öllu og reyndar, í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Frakklandi gegn Charlie Hebdo á sínum tíma, lögðum við Píratar fram frumvarp, sem var blessunarlega samþykkt, um að afnema 125. gr. almennra hegningarlaga sem var bann við guðlasti. Lengra vorum við ekki sjálf komin í frjálslyndum lýðræðisgildum árið 2015. Hv. þingmaður spurði hér nokkurra spurninga og spurði hvort það mætti spyrja eins og til að mynda hvort tiltekinn þjóðfélagshópur birtist, segjum, meira í glæpatölum eða því um líku. Svar mitt er: Já, það má spyrja. En svar mitt er sömuleiðis að þegar við fáum svarið þá eigum við að vita hvað við eigum að gera við það.

Það er auðvitað hætt við því að fólk nýti slík svör til að kynda undir fordómum eða hatri almennt og kannski liggur það beinast við frumstæðum tilfinningum á borð við fordóma sem við öll höfum eitthvað af og verðum að passa okkur á. En það kemur nefnilega í ljós að þessara spurninga hefur verið spurt og sem dæmi er spurt: Hvað er það sem fær unga karlmenn sem eru íslamstrúar til að leita í hryðjuverk? Þótt það sé auðvitað fjölbreyttur hópur eins og allir hópar þá eru þetta upp til hópa einstaklingar sem festast milli menningarheima. Þeir eru of miklir múslimar fyrir, segjum, franska samfélagið og of miklir Frakkar fyrir íslamska samfélagið, þeir eiga hvergi heima og finna hvergi að þeir séu velkomnir. Það er þess vegna sem það er að mínu mati mjög mikilvægt að við tökum vel á móti fólki. Þess vegna styð ég þetta mál, til þess að fólk upplifi sig ekki útilokað þótt það komi hérna í menningarheim sem því finnst kannski skrýtinn og er skrýtinn að sumu leyti, en sömuleiðis til að fólk geti fundið farveg fyrir líf sitt í samfélaginu án þess að festast á milli. (Forseti hringir.) Þess vegna styð ég málið og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann styðji málið einnig.