151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé fulla ástæðu til að þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar því með því veitti hann okkur hér í lok umræðunnar sýnishorn af málflutningi þeirra sem hafa komið upp til að styðja þetta mál, sem hafa reyndar í langflestum tilvikum verið úr flokki Pírata eins og hv. þingmaður. Það er einfaldlega fullyrt að þetta kosti bara 23 milljónir, kostnaðurinn sé eingöngu ráðning tveggja starfsmanna og litið algerlega fram hjá þeim gríðarlegu áhrifum sem þessi stefnubreyting muni hafa. En Samtök íslenskra sveitarfélaga benda hins vegar á að þetta sé ófjármagnað. Enda er það augljóst, herra forseti, að þegar ráðist er í grundvallarbreytingu sem gengur þvert á stefnu annarra Norðurlanda, þrátt fyrir að Ísland sé þegar komið með sexfalt fleiri hælisumsóknir en Noregur og Danmörk eftir fyrri skilaboð íslenskra stjórnvalda út í heim, þá mun það hafa áhrif á þann fjölda sem sækir um hér, þegar verið er að lögleiða það að þeir sem koma hingað, jafnvel ólöglega, jafnvel á vegum glæpagengja, eigi rétt á allri sömu þjónustu og þeir sem fara í gegnum hið lögformlega kerfi og er boðið til landsins. Ég læt vera að gera athugasemd við fúkyrði, skulum við kalla það til að gæta hófs, herra forseti, hv. þingmanns í lokin, en því miður eru þau líka lýsandi fyrir tilraunir stuðningsmanna málsins til að koma í veg fyrir gagnrýna umræðu um það.