151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

völd og áhrif útgerðarfyrirtækja.

[13:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni um hvort hann teldi stóru sjávarútvegsfyrirtækin vera orðin það stór að völd þeirra séu of mikil í samfélaginu og þau geti svolítið ráðið því hvernig stjórnvöld stíga til jarðar í ýmsum málum. En, forseti, orðspor Íslands og Íslendinga skaðaðist við bankahrunið. Það gerði það líka hjá þeim fjölda Íslendinga og þar á meðal ráðherra sem birtust í Panama-skjölunum. Telur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að neikvæð umfjöllun um samskipti Samherja, m.a. meint skattsvik í Færeyjum, peningaþvætti í gegnum banka í Noregi og mútugreiðslur í Namibíu, geti skaðað traust á íslensku atvinnulífi, að neikvæð umræða um viðskipti eigenda Samherja fylgi orðsporsáhætta, hafi neikvæð áhrif sem teygi sig yfir í viðskipti annarra íslenskra fyrirtækja og viðskiptasamninga þeirra? Hvað er hæstv. ríkisstjórn að gera til að verja orðspor Íslands að þessu leyti?