151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[13:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Kostnaðurinn er eitt atriði og það að ekki skuli liggja fyrir nein áætlun um hver kostnaðaraukinn verður vegna þeirrar stefnubreytingar sem með þessu er innleidd. Það er nefnilega verið að breyta stefnunni og það mun hafa áhrif, sérstaklega í ljósi þess að íslenska ríkisstjórnin er hér að fara í þveröfuga átt við stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndum. Raunar er þetta nokkurs konar jaðarmál í norrænni pólitík núna. Það á helst heima yst á jaðri norrænna stjórnmála. Í Danmörku er samstaða um það alveg frá hægri til vinstri, fram hjá sósíaldemókrötum, jafnaðarmönnum, að fara í hina áttina og stuðla að því að fólk fari öruggu, lögformlegu leiðina og Danir geti sjálfir ákveðið hverjum er boðið til landsins. Hér er verið að stuðla að hinu gagnstæða, að menn mæti sjálfir til landsins til að sækja um hæli.