151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:38]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig á að orða þetta með öðrum hætti en eins og ég nefndi áðan þá tölum við fyrir því og leggjum sérstaklega áherslu á það að norðurslóðir t.d. verði áfram lágspennusvæði og að sú aukna umferð sem hefur orðið og mun verða verði ekki til þess að ógna því sem við höfum haft fram til þessa. Þegar við erum hins vegar að tala um þessa hluti þá vitum við að það er t.d. mikil umferð kafbáta hér sem hefur gert það að verkum að bandalagsríki okkar hafa aukið mjög í kafbátaleit og annað slíkt. Það er ekki vegna þess að þau hafi ekkert annað við fjármunina að gera en að senda dýran búnað hingað til að fylgjast með þessu. Þetta er afleiðing af aukinni spennu og vígbúnaði og hófst eftir 2014 eftir ólöglega innlimun Krímskaga eins og við þekkjum.