151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og langaði að koma aðeins inn á viðhald á varnarmannvirkjum, einkum á Keflavíkurflugvelli og gamla varnarsvæðinu, og skuldbindingar okkar í þeim efnum. Ég gat ekki fundið neina umfjöllun um þetta í skýrslunni, kannski hæstv. ráðherra geti þá leiðrétt varðandi það. Ég sakna þess svolítið að sjá ekki aðeins farið yfir það vegna þess að þar er víða kominn tími á viðhald á þessum varnarmannvirkjum sem við höfum skuldbundið okkur til að hafa í lagi og er hluti af okkar framlagi til að standa við samninginn um varnir landsins og varnarsamninginn við Bandaríkin og NATO.

Mig langaði að spyrja sérstaklega um eitt verkefni sem ég veit að er tilbúið til framkvæmda, hver afstaða íslenskra stjórnvalda er í því máli. Það er verkefni sem hljóðar upp á u.þ.b. 13 milljarða íslenskra króna og er áhugi, a.m.k. hjá bandarískum stjórnvöldum, til að reisa á Keflavíkurflugvelli, á varnarsvæðinu. Það er vöruhús og nokkrar byggingar tengdar því. Þetta verkefni heitir á ensku, með leyfi forseta, Deployable Airbase System, eða DABS. Það myndi gefa, að mér skilst, 600 störf á framkvæmdatíma og u.þ.b. rúmlega 50 varanleg störf til frambúðar fyrir Íslendinga. Hér er ekki verið að tala um neina viðveru Bandaríkjahers heldur bara aðstöðu sem yrði þá klár til notkunar ef á því þyrfti að halda. Mér skilst að þetta sé allt saman tilbúið, en það standi upp á íslensk stjórnvöld að gefa grænt ljós á þetta mál. Ef hæstv. utanríkisráðherra gæti farið yfir það og upplýst okkur um hver staðan er á því af hálfu íslenskra stjórnvalda.