151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[18:06]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka fyrir þessa greinargóðu skýrslu sem hér hefur verið lögð fram með hefðbundnum hætti um utanríkismál og veitir yfirgripsmikið yfirlit yfir örugglega allt alþjóðastarf sem Ísland á í með formlegum hætti. Það fer vel á því að hér hafi farið fram í allan dag á Alþingi umræður um utanríkismál, í málinu hér á undan um samskipti okkar við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn. Í þessari viku fögnum við 70 ára afmæli varnarsamningsins við Bandaríkin sem er án efa eitt það mikilvægasta alþjóðasamstarf eða samstarf við annað erlent ríki sem Ísland á í. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fjalla sérstaklega um það en ég tek undir það sem fram kemur í þessari skýrslu að í þjóðaröryggisstefnu Íslands verði áfram byggt á því góða samstarfi sem hefur hins vegar óhjákvæmilega þróast með þeim hætti að það tekur nú í vaxandi mæli mið af ýmsum ógnum sem steðja að fullvalda ríkjum úti um allan heim. Við tökum fegins hendi þátt í þeirri þróun með bandalagsþjóðum okkar í NATO.

Mig langar hins vegar að nefna hér lítinn eða afmarkaðan þátt í alþjóðasamskiptum. Ég held að margir hafi orðið nokkuð hvumsa þegar kom upp atvik fyrir nokkrum dögum, kannski vikum, sem má kannski segja að sé nýmæli í samskiptum Íslands við aðrar þjóðir. Þá er ég að vísa til samskipta við Kína sem féllu í farveg sem við höfum ekki séð áður. Kínverska alþýðulýðveldið greip til þess að grípa til ákveðinna, hvað á maður að segja, refsiaðgerða gagnvart einstaklingi á Íslandi, almennum borgara. Fréttir hafa verið fluttar af þessu. Þetta var í kjölfar þess að Ísland tók þátt með öðrum ríkjum í að fordæma aðstæður og þróun mála í héraði norðvestur í hinu víðfeðma ríki Kína, svæði sem áður var Austur-Túrkistan en er nú hluti af Kína, Xinjiang-héraði, ekki víst að ég beri þetta rétt fram, og Úígúr-héraði. Þar búa að mestu leyti Úígúr-múslimar ásamt öðrum auðvitað frá Kína en þeir hafa verið þarna í meiri hluta. Fréttir hafa verið fluttar um nokkurt skeið, allt of langt skeið, af mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda í þessu héraði gagnvart hópi fólks sem þarna býr, m.a. með fangelsun einstaklinga, pyndingum, þrælahaldi og kynferðislegu ofbeldi. Það hlaut að koma að því að lönd sem vilja standa vörð um mannréttindi og lýðræði — látum nú vera lýðræðið kannski ef við horfum til Kína — í öllu falli mannréttindi og mennskuna í þessum heimi, létu í sér heyra í tengslum við þetta. Ísland ásamt Evrópusambandinu og fleiri þjóðum tók þátt í því að halda til haga refsiaðgerðum gagnvart tilteknum embættismönnum í þessu héraði, tilteknum embættismönnum sem menn telja sýnt að séu forvígismenn eða beri ábyrgð á tilteknum mannréttindabrotum í þessu héraði. Þessu var svarað eins og ég lýsti hér áðan með aðgerð, a.m.k. gagnvart Íslandi, það hefur mögulega verið gripið til sambærilegra aðgerða gagnvart öðrum ríkjum sem voru með Íslandi í þessu. En hér á landi var gripið til þess óyndisúrræðis, segi ég, að draga með einhverjum hætti til ábyrgðar almennan borgara á Íslandi.

Ég átti fund með kínverska sendiherranum um þessi mál fyrir skömmu og lýsti þar yfir vonbrigðum mínum með að sjálfsögðu fyrst og fremst ástandið í þessu héraði og ástand mannréttindamála að öðru leyti í Kína, m.a. í Hong Kong þessi dægrin, en þar er ástandið að mínu mati alvarlegt, en sérstaklega þó þessar aðgerðir Kínverja gagnvart almennum borgara, íslenskum einstaklingi sem sætir þessari gagnkvæmu refsiaðgerð eins og Kínverjar vilja kalla það í tilefni af mótmælum við mannréttindabrotum í Kína. Það olli mér miklum vonbrigðum að heyra kínverska sendiherrann lýsa því að það væri rétt af íslenskum stjórnvöldum að líta á þessa aðgerð gagnvart hinum íslenska borgara sem viðvörun til framtíðar. Það yrði gripið til harðari aðgerða gagnvart væntanlega fleirum en almennum borgurum af þessu tagi ef Ísland ásamt öðrum ríkjum hygðist grípa til einhvers konar refsiaðgerða eða mótmæla í tengslum við mannréttindabrot á öðrum svæðum en í Xinjiang-héraði.

Ég er sammála sendiherra Kína og þeim sem hafa hér rekið erindi kínverska alþýðulýðveldisins um það að mikilvægt sé að samskipti þessara ríkja séu góð og að bæði ríki geti notið góðs af góðum samskiptum. En ég kom því á framfæri að Ísland gæti aldrei gefið afslátt af því tjáningarfrelsi sem hér ríkir, hvorki af hálfu stjórnvalda og hvað þá af hálfu almennra borgara, að það verði í þágu samskipta ríkjanna. Samskipti Íslands við Kína eins og öll önnur ríki eiga að sjálfsögðu að þola málefnalega gagnrýni og málefnalega umræðu opinberlega en auðvitað ekki síður á milli erindreka ríkjanna án þess að hafa þurfi uppi slíkar hótanir um alvarlegar aðgerðir í garð almennra borgara eða stjórnvalda.

Þetta vildi ég bara nefna hér í umræðunni um þessa annars yfirgripsmiklu skýrslu að öðru leyti. Það má öllum vera ljóst sem fer yfir hana og hugleiðir alþjóðasamskipti Íslands yfir höfuð að því meiri samskipti sem við höfum við önnur ríki, frjálsari samskipti og málefnalega gagnrýni jafnvel á önnur ríki og þolum um leið málefnalega gagnrýni á okkar eigin stjórnvöld og okkar innanlandsmál án þess að menn hafi nokkra heimild til að hlutast til um þau hér innan lands, ekki frekar en við í innanlandsmál annarra ríkja, að fátt þjónar hagsmunum Íslands meira en einmitt slík alþjóðasamskipti.