151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[18:22]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum sem hér tóku þátt í umræðunni. Umræðan var góð og málefnaleg og ég þakka hlý orð í garð utanríkisþjónustunnar og starfsfólks þess. Ég er sammála þeim góðu orðum. Ég held að framsetningin á þessari skýrslu sé til eftirbreytni. Það er mjög gott fyrir okkur að hafa framsetninguna eins aðgengilega og hún getur orðið. Það var komið víða við og ég get reynt að svara einhverju sem hér kom fram. Það var spurt um Strassborg, hvort opnunin væri til frambúðar. Eins og þekkt er þá tók ég þá ákvörðun þegar ég tók við embætti að nýta fjármuni til opnunar á þeim tíma frekar í hagsmunagæslu innan EES og sömuleiðis í Brexit. Þessi fjárveiting til 2023 er tímabundin fjárveiting og það þarf þá að taka sérstaka ákvörðun ef menn ætla að framlengja hana.

Hér hefur verið rætt mikið um umhverfismál og þróunina í þeim málum, græna utanríkisstefnu og femíníska. Þegar kemur að framkvæmdinni þá stöndumst við svo sannarlega samanburð við alla þá sem kenna sig við slíkt. Eitt af þverlægum markmiðum í t.d. þróunarsamvinnu er umhverfismál og hefur verið mikil hækkun framlaga, reyndar helmingshækkun, þegar kemur að jafnréttismálum. Það er líka gegnumgangandi í öllu okkar starfi að leggja áherslu á þessa tvo málaflokka. Hér voru nefnd heilbrigðismál í þróunarsamvinnunni. Það er nokkuð sem við höfum unnið mjög að þegar kemur að tvíhliða verkefnum, þá höfum við unnið með héraðsyfirvöldum bæði í Malaví og Úganda og þar eru t.d. vatnsmálin mjög áberandi og ýmislegt annað sem tengist því.

Varðandi ofsóknir gegn hinsegin fólki, þar er rætt um Tsjetsjeníu alveg sérstaklega, þá eru málefni hinsegin fólks lykilatriði í mannréttindamálafylgju Íslands og hafa verið alla þá tíð sem ég hef verið í ráðuneytinu og örugglega fyrir þann tíma og við höfum beitt okkur ötullega fyrir mannréttindum hinsegin fólks og kynjajafnrétti í mannréttindaráðinu.

Hér spurði hv. þm. Birgir Þórarinsson hvort við legðum áherslu á þetta í þróunarsamvinnunni. Það var vinnuhópur undir forystu Diljár Mistar Einarsdóttur sem kom með tillögur sem við erum að framkvæma um mannréttindamiðaða þróunarsamvinnu og menn geta verið með það á hreinu að þeim skilaboðum er komið mjög skýrt á framfæri til þeirra aðila sem við erum að vinna með og ekki síst ríkjunum í tvíhliða samstarfinu.

Hér voru nefnd málefni hafsins. Þetta er lykilþáttur í formennsku okkar í Norðurskautsráðinu og þá sérstaklega plastmengun í hafi, af því að hún var nefnd alveg sérstaklega. Það var eitt af áhersluatriðum okkar og nýbreytni í norðurskautsráðinu að leggja áherslu á þann þátt.

Það er komin deild um fjölþáttaógnir í ráðuneytinu og við erum svo sannarlega virkir þátttakendur á þeim vettvangi og þegar kemur að hafréttarmálunum.

Síðan var spurt út í hvort við deildum ekki sendiráðsbyggingum með öðrum Norðurlandaþjóðum. Við gerum það víða. Þekktasta dæmið er í Berlín þar sem öll Norðurlöndin eru saman, en við deilum t.d. byggingu í Washington með Svíþjóð, í Peking með Eistlandi, í London með Danmörku og ég held að Noregur sé að koma inn þar líka. Í Nýju-Delí erum við með Danmörku og í Kampala einnig með Danmörku. Ef einhver kostur er á því þá nýtum við byggingar með öðrum Norðurlöndum og hefur það gefist mjög vel.

Hér fór hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir yfir þjónustuborðið hjá Íslandsstofu, Heimstorgið og annað slíkt og ég ætla ekkert að bæta í það, ég er sammála því sem þar kom fram. Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir ræddi Istanbúl-samninginn og við höfum gagnrýnt fráhvarf Tyrkja frá Istanbúl-samningnum og lýst áhyggjum af stöðu hans. Ég sendi frá mér yfirlýsingu 20. mars þar sem ég harmaði þá ákvörðun tyrkneskra stjórnvalda að segja sig frá Istanbúl-samningnum. Við lögðum áherslu á að þar væru stjórnvöld að grafa undan mikilvægum lagagrunni sem tryggði fórnarlömbum ofbeldis réttaröryggi og það ætti í rauninni að vera markmið allra Evrópuríkja að efla þann grunn fremur en að draga úr honum.

Síðan var minnst á þjóðarmorðið á Armenum og vakin athygli á því að nýlega tók Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, undir þá skilgreiningu að fjöldamorðin á armenska minni hlutanum í veldi Ottómana í byrjun 20. aldar væri þjóðarmorð, en áður höfðu báðar deildir Bandaríkjaþings gert hið sama árið 2019. Nú hafa um 30 ríki skilgreint fjöldamorðin sem þjóðarmorð. Það er engum blöðum um það að fletta að mikil illvirki voru unnin gegn Armenum á tímum fyrri heimsstyrjaldar. Það er talað um að allt að ein milljón þeirra hafi verið myrt. En almennt virðist viðurkenning á þessum atburðum koma frá þjóðþingum en ekki frá ríkisstjórnum. Ég tel eðlilegt að Alþingi eigi frumkvæði að því og umfjöllun um skilgreiningu þessara atburða fremur en ríkisstjórnin, þó svo að í einum vefmiðli sé alltaf mynd af mér þegar það er sagt að ekki sé búið að fullgilda þetta. Það er ekki orðið svo gott, ég held að enginn hafi þau völd að stýra þinginu. En ég á hins vegar ekki von á öðru en að menn taki því vel og ég held að það sé skynsamlegt að þingið hafi forgöngu í því.

Hér var minnst á fjarfundi. Það er nokkuð sem við höfum nýtt mjög og ég hef sent bréf á kollega mína sem við erum í hvað nánasta samstarfi við, um að fara ekki í sama farveginn og áður, bæði hvað varðar ráðherra og aðra, heldur nýta fjarfundabúnaðinn betur. Það hefur reynst vel. Auðvitað koma fjarfundir ekki alveg í staðinn en svo sannarlega gera þeir það oft.

Að endingu vil ég taka undir áskoranir hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar sem fór yfir norðurslóðamálin af alkunnri þekkingu, en sagði líka nokkuð sem mér fannst vera kjarni máls. Það er að við höldum áfram því sem við hófum þegar við fórum að beita okkur í mannréttindamálum. Það kom mér á óvart að enginn fyrirrennari minn hafði ávarpað mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og ég er fyrsti íslenski utanríkisráðherrann sem gerir það. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir hvaða áhrif við höfum haft og það er horft til okkar, ég hef fundið það mjög, og reyndar hefur umfjöllun um þessi mál verið meiri á erlendum vettvangi en hér. En það skiptir máli að það sé þverpólitísk samstaða um að halda því áfram, þannig að ég tek undir með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni að þetta sé nokkuð sem við eigum að halda áfram.

Aðalatriði er hins vegar þetta: Það er enginn sem gætir okkar hagsmuna nema við sjálf. Við þurfum alltaf að vera á vaktinni þegar að því kemur. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Mér finnst vera mjög mikil breyting frá því að ég kom hér með mína fyrstu skýrslu hvernig umræðan er, mér finnst hún uppbyggilegri, málefnalegri. Mér fannst hún byggð á miklu meiri þekkingu. Eitt af því sem við höfum lagt áherslu á er að koma hlutum frá okkur og kynna hvað er í gangi, m.a. með þessari skýrslu. Ég held að það sé undirstaðan að því að umræðan geti verið góð og málefnaleg. Umræðan um alþjóðamál verður að vera hér á vettvangi þingsins vegna þess að það eru hagsmunir okkar að við fylgjumst með þeim málum, að við gætum hagsmuna okkar og að utanríkisþjónustan sé í stakk búin til að gera það. Það er enginn vafi á að þær breytingar sem við höfum farið í á utanríkisþjónustunni hafa eflt hana. Ég hef verið skammaður fyrir að spara en ég tel það að vísu vera hlutverk stjórnmálamanna að fara eins vel með fjármagn og mögulegt er. Sömuleiðis er ekki samhengi á milli útgjalda og árangurs. Það sýna dæmin okkur. Auðvitað þurfa menn stundum að setja meiri fjármuni í mál en staðan er þannig að það er alltaf hægt að bæta í og menn þurfa þá að reyna að meta það og vinna úr þeim fjármunum sem þeir hafa hverju sinni og reyna að ná eins góðum árangri og hægt er.

Ég er mjög stoltur af íslensku utanríkisþjónustunni. Mér finnst hún hafa staðið sig mjög vel, sérstaklega á þessum krefjandi tímum. Auðvitað er mest áberandi borgaraþjónustuverkefnið þegar við komum um 10.000 Íslendingum heim á mjög skömmum tíma með hætti sem eftir var tekið. En af mjög mörgu öðru mætti taka og verkefnin eru óendanleg og það er aldrei svo að við getum sest niður og sagt að við séum búin að gæta hagsmuna okkar þannig að við þurfum ekki að gera meira.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum aftur fyrir góða umræðu, málefnalega og uppbyggilega, og sömuleiðis þakka sérstaklega starfsmönnum utanríkisþjónustunnar fyrir þeirra störf, og síðan er skýrslan auðvitað byggð á þeirra vinnu og þeirra verkum og fyrir það ber að þakka.