151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þekki náttúrlega ekki nákvæmlega einstök tilvik varðandi þær fyrirspurnir sem hv. þingmenn hafa verið að vísa í hér en verð bara að vekja athygli á því að það hefur auðvitað verið um það rætt margoft og margoft verið gerðar tilraunir til þess af hálfu þingsins að þrýsta á svör frá ráðherrum. Auðvitað eru aðstæður mismunandi og sum mál krefjast meiri undirbúnings og lengri vinnu en önnur þannig að það geta verið alls konar skýringar á því. Ég kannast ekki við að þetta sé eitthvað verra heldur en oft hefur verið. Hins vegar hefur okkur kannski ekki tekist nægilega vel að bæta vinnubrögð að þessu leyti eins og við ætluðum okkur.

Að öðru. Ég vildi nefna að ég held að málið sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson vísaði til og er að fá frekar hraða meðferð í þinginu, að það ætti engu að síður að vera hægt að gera það. Þetta er mikilvægt mál sem varðar framlengingu ýmissa aðgerða og ætti ekki að vera flókið fyrir hæstv. Alþingi að taka afstöðu til þeirra framlengingar.