151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[15:04]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi því bara ekki upp á ríkisstjórnina að hún ætli að skýla sér á bak við það að þýðingin hafi tekið svo langan tíma og þess vegna hafi hún ekki getað lagt lögfestingarfrumvarpið fram fyrr. Við erum að þýða hér hægri vinstri einhver EES-mál, við ráðum við það, flókinn texta. Ég tek undir að það hefði fyrir löngu átt að vera búið að klára þessa þýðingu. En stóra málið er lögfestingin. Það er málið. Það er innihaldið. Við höfum séð það, í ýmsum dómum Hæstaréttar, að dómstólar hafa verið tregir til að fjalla um félagsleg réttindi. Staða þeirra, samkvæmt úttekt frá lögfræðingi við Harvard-háskóla á sínum tíma, sýndi að staða félagslegra réttinda fyrir íslenskum dómstólum væri veik og vernd þeirra hefði hrakað á allra síðustu árum. Þetta var skrifað á sínum tíma. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við klárum lögfestinguna og setjum þennan samning á sama stall og mannréttindasáttmála Evrópu og á sama stall og lög í landinu þannig að hægt sé að beita þessum grundvallarréttindum sem settum lögum, bæði gagnvart stjórnsýslunni og ekki síst fyrir dómstólum. Þetta er stórt mál. Það er stórt mál ef, eins og ég sagði áðan, ríkisstjórnin kemst upp með það, án einhverrar umræðu hér eða úti í samfélaginu, að leggja ekki fram frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er bara stórmál. Ég þekki barnasáttmálann, ég lagði það fram líka að við ættum að lögfesta hann en það tók ansi mörg ár, get ég sagt ykkur, í jafn sjálfsögðu máli. Það er enginn á móti barnasáttmálanum. Það ætti enginn að vera á móti þessum samningi. En það er eins og það komi einhver tregða þegar þarf að klára málin. Stígum þetta skref saman, berjum okkur öll á brjóst og verum stolt, ljúkum þinginu með glæsibrag og lögfestum þennan samning. Þó að það taki kannski einhvern örlítinn tíma að aðlaga íslensk lög að því, ókei, gott og vel, en klárum lögfestinguna og ljúkum þessu með stæl.