151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

flugvallamál.

[13:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni um að flugstöðin á Reykjavíkurflugvelli er auðvitað engan veginn boðleg og hefur svo sem ekki verið lengi. Varðandi þessa vinnu sem tengist Reykjavíkurflugvelli, skoðanir á hugsanlegum öðrum flugvelli og þá sérstaklega í Hvassahrauni, má segja að það gangi allt saman sinn eðlilega gang þar í ljósi þessa samkomulags frá nóvember 2019. Í því samkomulagi er einmitt kveðið á um að Reykjavíkurflugvöllur verði í óbreyttri mynd og að hann megi ekki skerða, það þarf að tryggja það, þangað til að annar betri eða jafn góður völlur finnst annars staðar. Hluti af því verkefni var að skoða Hvassahraun. Við eigum von á áhættumati, vonandi gengur það eftir í lok þessa árs. Það er vissulega talsvert að gera hjá Veðurstofu Íslands sem búið var að gera samning við um að endurmeta þá áhættu. En auðvitað sjá allir sem fylgjast með fréttum dagsdaglega að það eru jarðhræringar á Reykjanesi og við vitum ekki allt en vitum þó, út frá sögulegum heimildum og upplýsingum jarðvísindamanna okkar, að það er líklegt að þær geti staðið yfir í einhvern tiltekinn tíma þangað til langt hlé verður á þeim. Í mínum huga gæti verið óskynsamlegt að fara í miklar framkvæmdir rétt á meðan slík hrina gengur yfir. Í því skyni höfum við verið að leggja áherslu á að lagfæra og endurbyggja aðstöðuna á Reykjavíkurflugvelli, flugstöðina. Samkvæmt upplýsingum sem við höfum frá Air Iceland Connect, sem einu sinni hét svo í það minnsta, og eins úr samtölum við fólk hjá Reykjavíkurborg, er líklegt að fyrir því fáist framkvæmdaleyfi. Fjármálaráðuneytið, samgönguráðuneytið og Isavia hafa verið með starfshóp og átt samtal við m.a. Icelandair um kaup á þeim tækjum og restum sem þar eru í því skyni að geta farið í þetta verkefni. Það er í ákveðnu ferli og ég vona að það geti komið einhverjar fréttir af því fljótlega.