151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

svar við fyrirspurn.

[13:47]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég óska líka eftir aðstoð forseta, en um sýnu alvarlegra mál en ósvaraða fyrirspurn, því að að mínu mati er verið að brjóta á vilja Alþingis þegar skýr þingsályktun er hunsuð árum saman. Við samþykktum hér fyrir tveimur árum að það bæri að lögfesta samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og það sem meira er, og það er afskaplega skýrt, hér áttu ráðherrarnir, ríkisstjórnin, að leggja fram frumvarp og það var ekkert val. Mig langar að fá liðsinni forseta, sérstaklega í ljósi þess sem kom frá lagakrifstofu Alþingis þar sem stendur:

„Til heimilda stjórnskipunarréttarins teljast ályktanir Alþingis. Tilmæli sem í þeim felast og beint er til ríkisstjórnar eru bindandi fyrir ríkisstjórnina á grundvelli þingræðisvenjunnar.“

Hvernig dettur mönnum í hug að framkvæmdarvaldið, ráðherrarnir, geti bara hunsað þingsályktun eftir behag? Kerfið virkar ekki þannig. Ráðherrarnir eru framkvæmdarvald, þeir eiga að hlíta lögum og hlíta þingsályktunum. Þetta hafa fræðimenn bent á árum saman. (Forseti hringir.)

Mig langar að fá svör frá forseta Alþingis. Hefur eitthvað breyst hvað þetta varðar eða ætlar forseti að beita sér fyrir því að vilji þingsins komi skýrt fram, að hann sé virtur og frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks birtist í þessum sal?