151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði. Þau lög eru nr. 61/2006. Það sem þetta mál snýst um er að frumvarpið er að meginstefnu viðleitni til þess að efla minnihlutavernd í veiðifélögum og ég minni á að aðild að veiðifélögum er lögskyld þeim sem í hlut eiga. Af einhverjum ástæðum sem ekki hafa verið skýrðar — þar á meðal ekki af hálfu framsögumanns meiri hluta nefndarinnar sem gat ekki útskýrt með fullnægjandi hætti af hverju er verið að gera hér tillögu um að falla frá þeim hæfisskilyrðum sem eru fyrir hendi í gildandi lögum og kveða á um að tveir af þremur nefndarmönnum í matsnefnd, sem gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki, uppfylli hæfisskilyrði héraðsdómara.

Minni hlutinn, sem stendur saman af fulltrúum Miðflokksins í hv. atvinnuveganefnd, okkur hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, telur að fella eigi þetta ákvæði brott og halda sig við óbreytta skipan sem er sú að ráðherra skipi einn án tilnefningar, annan samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar og skuli þeir báðir hafa hæfisskilyrði héraðsdómara. Þriðja nefndarmanninn tilnefnir Landssamband veiðifélaga. Minni hlutinn telur að þessi breytingartillaga, sem ekki hefur verið útskýrt hvaða erindi á inn í frumvarp sem fjallar um minnihlutavernd í veiðifélögum, sé tilefnislaus og óviðunandi sé að ekki séu settar neinar hæfniskröfur til setu í matsnefnd þegar — eins og hér hefur verið rakið — tveir nefndarmanna þurfa að uppfylla skilyrði til héraðsdómara.

Þá er á það að líta, herra forseti, að Landssamband veiðifélaga hefur mótmælt þessari breytingu harðlega í umsögn sinni og í bréfum til atvinnuveganefndar. Landssambandið telur að meiri þörf sé á þekkingu innan matsnefndar til að taka á lögfræðilegum úrlausnarefnum, m.a. með vísan til verkefna nefndarinnar og þeirra nýju verkefna sem henni verða falin verði frumvarpið að lögum. Minni hlutinn og reyndar Landssamband veiðifélaga benda á að hætta sé á hagsmunaárekstrum tilnefni Hafrannsóknastofnun nefndarmann í matsnefnd, m.a. með vísan til þess sem segir í umsögn Landssambands veiðifélaga, að stofnunin kemur að ýmsum verkefnum og tekur ákvarðanir sem koma til kasta matsnefndar.

Herra forseti. Minni hlutinn vill gjarnan standa að breytingum um aukna vernd minni hluta í veiðifélögum en getur ekki sætt sig við þessa tilefnislausu breytingu á skipan matsnefndar. Í framhaldi af orðum hv. framsögumanns, hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar, um að áfram séu gerðar kröfur vil ég ítreka að það er náttúrlega ekki rétt af hans hálfu vegna þess að með lögunum eru nú gerðar ríkar kröfur um að tveir menn uppfylli skilyrði til þess að vera héraðsdómarar. En lögin eins og á að breyta þeim gera engin slík skilyrði. Það eru engin skilyrði.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vísa í umsögn Landssambands veiðifélaga. Hún er dagsett 17. febrúar og er um þetta mál. Þar segir, með leyfi forseta:

„[Landssamband veiðifélaga] fær ekki séð hvers vegna er sérstök þörf á því að skipa í nefndina fulltrúa með sérþekkingu á líffræði vatnafiska. Þvert á móti telur LV æskilegt að í nefndinni eigi áfram sæti menn sem uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara til þess að tryggja rétta og faglega málsmeðferð. Auk þess að gera arðskrá er hægt að skjóta mörgum lögfræðilegum álitaefnum til matsnefndar. Eftir því sem eignarhald jarða með veiðirétti verður fjölbreyttara má reikna með að slíkum málum geti fjölgað verulega á næstu árum. […] Verkefni nefndarinnar eru að miklu leyti lögfræðilegs eðlis og mikilvægt er að hún sé að meirihluta skipuð vönum lögfræðingum. Þessi nefnd þarf líka að rita úrskurði sem er helst á færi löglærðra. Jafnvel er mikilvægara nú en áður að nefndarmenn séu löglærðir í ljósi þess að hægt verður að bera ágreining um nýjar 3. og 4. mgr. 40. gr. laganna undir nefndina. Bent er á að nefndinni er skv. núgildandi reglum heimilt að kveðja sérfræðinga sér til aðstoðar ef þörf þykir.“

Þá er auðvitað rétt að rifja upp að samkvæmt gildandi lögum sem munu áfram standa er í 3. mgr. 44. gr. heimild fyrir matsnefnd til að kveðja sérfræðinga sér til aðstoðar ef þörf þykir. Þar er líka önnur heimild og hún er orðuð svo í lögunum, með leyfi forseta:

„[Matsnefnd] er einnig heimilt að leita eftir áliti eða rannsóknum sérfræðinga eða rannsóknastofnana á lífríki vatns þar sem það hefur þýðingu fyrir úrlausn máls.“

Ég hlýt að geta þess í framhaldi af þessu að ekkert hefur komið fram um að skapast hafi vandkvæði í störfum matsnefndar vegna þess hvernig hún hefur verið skipuð. Ekki hefur verið sýnt fram á og ekki einu sinni verið haft orð á því að þessi tvöfalda heimild sem er í lögum, annars vegar um að kveðja sérfræðinga nefndinni til aðstoðar ef þörf þykir og hins vegar að leita eftir áliti eða rannsóknum sérfræðinga eða rannsóknarstofnana á lífríki vatns þar sem það hefur þýðingu fyrir úrlausn máls, hafi verið ófullnægjandi og ekki dugað til að tryggja að fiskifræðileg þekking kæmist nógsamlega að málum þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi matsnefndar.

Þá vil ég geta þess, herra forseti, að tvö bréf hafa verið rituð af hálfu Landssambands til hv. atvinnuveganefndar þar sem eindregið er skorað á nefndina að hverfa frá þessum breytingum á skipan matsnefndar. Í bréfi sem er dagsett 29. apríl 2021 og er undirritað af framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga, Elíasi Blöndal Guðjónssyni, segir, með leyfi forseta:

„Það væri málinu í heild til framdráttar ef horfið yrði frá þessum breytingum á skipan matsnefndarinnar.“

Síðan er bent á ýmsar röksemdir og ég ætla að grípa niður í þetta bréf um það, með leyfi forseta, en þar segir:

„[Landssamband veiðifélaga] fær ekki séð hvers vegna er sérstök þörf á því að skipa í nefndina fulltrúa með sérþekkingu á líffræði vatnafiska. Fyrirhugað er að fella á brott hæfisskilyrði. Þvert á móti telur LV æskilegt að í nefndinni eigi áfram sæti menn sem uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara til þess að tryggja rétta og faglega málsmeðferð. Auk þess að gera arðskrá er hægt að skjóta mörgum lögfræðilegum álitaefnum til matsnefndar.“

Síðan er fjallað um að í athugasemdum með frumvarpinu sé fjallað um að efla þurfi fiskifræðilega aðkomu að matsgerðum og látið að því liggja, segir í bréfinu, að vægi búsvæða skuli aukið. Um það segir, með leyfi forseta:

„Um þau rök eru mjög skiptar skoðanir milli veiðiréttareigenda eins og sjá má ef skoðaðar eru kröfur einstakra veiðiréttareigenda vegna úrskurða um arðskrár undanfarin ár. Nær undantekningalaust hefur einingum verið skipt milli veiðiréttareigenda í samræmi við það sem fram kemur í búsvæðamötum frá fiskifræðingum. […] Búsvæðamat tekur eingöngu til botngerðar en ekkert til annarra skilyrða í ánum. Eðlilegra væri að fiskifræðingar kæmu sér upp aðferðum til að taka hitastig og fæðumöguleika inn í sín búsvæðamöt og leggja slík fræði til úrlausnar matsmanna. Það hafa fiskifræðingar ekki gert og styðjast eingöngu við botngerð í búsvæðamötum.“

Þarna segir áfram:

„Í flestum málum sem koma á borð arðskrárnefndar liggur fyrir búsvæðamat sem oft er unnið af Hafrannsóknarstofnun. Kemur þá til kasta fulltrúa að taka afstöðu til búsvæðamats sem unnið er af sömu stofnun og tilnefnir hann.“

Ef þetta ákvæði frumvarpsins yrði að lögum, að einn fulltrúi yrði skipaður samkvæmt ábendingu Hafrannsóknastofnunar, segir í bréfinu að færa mætti fyrir því rök að fulltrúi sem tilnefndur er af Hafrannsóknastofnun væri vanhæfur til þess að fjalla um búsvæðamat, unnið af sömu stofnun, og meta vægi þess.

Loks er bent á í bréfinu, sem ég hef hér verið að vitna til, að matsnefndin fari einnig með önnur verkefni samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði. Í flestum tilfellum eru slíkar ákvarðanir teknar eftir umsögn frá Hafrannsóknastofnun. Er bent á 24., 29., 34. og 35. gr. laganna í því sambandi. Þá segir í bréfinu, með leyfi forseta:

„Færa má rök fyrir því að fulltrúi Hafrannsóknastofnunar væri vanhæfur til þess að fjalla um þessi mál. […] Með vísan til ofangreinds leggur Landssamband veiðifélag til að horfið verði frá fyrirhuguðum breytingum á skipan í matsnefnd skv. 44. gr. laga um lax- og silungsveiði.“

Herra forseti. Landssambandið fylgir þessu bréfi eftir með bréfi sem er dagsett 6. maí 2021, viðbótarröksemd af hálfu Landssambands veiðifélaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skv. 2. mgr. 18. gr. laga um fiskeldi á að meta tjón á hagsmunum veiðiréttarhafa vegna missis eldisfisks á grundvelli mats samkvæmt VII. kafla laga um lax- og silungsveiði. […] Hér er sem sagt verið að leggja til að fulltrúi Hafrannsóknastofnunar eigi sæti í nefnd sem á að meta tjón veiðiréttarhafa af völdum ákvarðana sem Hafrannsóknastofnun hefur tekið.“

Þetta gengur vitaskuld ekki upp. Það hljóta einfaldlega að vakna spurningar um hvaða hvatar búi að baki þessum fyrirhuguðu breytingum, ekki síst í ljósi þess að atvinnuvegaráðuneytið, sem fer bæði með málefni lax- og silungsveiði og málefni fiskeldis, hefur ýtt þessu máli áfram af miklum þunga.

Herra forseti. Menn sjá að það er mikil málafylgja að baki málflutningi Landssambands veiðifélaga sem beinir þeim eindregnu óskum til nefndarinnar og Alþingis að fallið verði frá fyrirhuguðum breytingum. Af þessum ástæðum viljum við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, sem viljum halda í gildandi skipan þar sem gerðar eru ríkar hæfiskröfur um að tveir fulltrúar uppfylli hæfisskilyrði héraðsdómara, að það standi áfram óbreytt. Við flytjum samhliða þessu áliti minni hluta tillögu um að þessi grein frumvarpsins falli brott, þ.e. að a-liður 3. gr. falli brott. Ef það yrði samþykkt yrði niðurstaðan sú að ekki yrðu gerðar breytingar á skipan matsnefndar. Það tel ég vera farsælast enda hefur ekki með neinu móti verið sýnt fram á nauðsyn þess að gera þá breytingu sem hér er lögð til. Ég ítreka að gildandi lög geyma ríkulegar heimildir fyrir matsnefnd til að afla sér sérfræðilegra álitsgerða um líffræðileg málefni á borð við fiskifræði og annað af því tagi.

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að þetta mál verði rætt frekar á vettvangi hv. atvinnuveganefndar, ekki síst í ljósi þessara eindregnu tilmæla frá Landssambandi veiðifélaga. Ég óska þess vegna eftir því að málið verði tekið fyrir í nefndinni á milli 2. og 3. umr.