151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Spáið í því, við erum að styrkja einkarekna fjölmiðla á markaði sem eru reknir af auðmönnum og þurfa ekki á styrk að halda. Á sama tíma erum við með þetta risabákn RÚV. Það eru 7.000 milljónir, 7 milljarðar, sem þeir hafa. Ef við setjum það í samhengi við einhvern smáfjölmiðil sem er í einu herbergi með nokkrar tölvur og örfáa starfsmenn þá hallar virkilega þar á. Það væri miklu nær að við einbeittum okkur að því að reyna að finna út hvernig við getum styrkt þessa litlu fjölmiðla, landsbyggðarfjölmiðla og aðra, frekar en að setja þetta út til allra. Síst af öllu og það sem er eiginlega furðulegast er að miðað við hvernig á að útdeila þessu munu þeir fá mest sem ættu síst að fá þetta en þeir sem þurfa mest á þessu að halda fá minnst. Síðan er auðvitað annað í þessu sem hefði verið mun árangursríkara en það væri t.d. að hjálpa þeim fjölmiðlum sem eru í virkilegri samkeppni við erlenda fjölmiðla, þurfa til að mynda að þýða barnaefni og ýmislegt efni yfir á íslensku til að viðhalda íslenskri tungu, að við hefðum frekar lagt fjármuni í það heldur en nokkurn tímann að fara að setja 100 milljónir og jafnvel meira til einkarekinna fjölmiðla sem þurfa ekkert á þessum fjármunum að halda og hafa í nógu djúpa sjóði að kafa til að halda úti fréttaflutningi sínum í eigin þágu.