151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel einmitt að þessum fjármunum sé alveg gríðarlega vel varið og að þeir skipti máli fyrir samfélagið í heild sinni því að öflugir fjölmiðlar sem fjalla um málefni sem skipta samfélagið máli og eru með vandaða ritstjórn og vandaðan fréttaflutning efla samfélagið. Þannig að ég held einmitt að þessum peningum sé vel varið og ég held líka að verið sé að byrja á alveg hárréttum enda með því að styrkja einkarekna fjölmiðla.

Ég held að staða RÚV á auglýsingamarkaði, þ.e. að taka RÚV af auglýsingamarkaði, muni ekki sjálfkrafa leiða til þess að þær auglýsingatekjur renni til einkarekinna fjölmiðla. Það hefur til að mynda sýnt sig að þegar RÚV hætti með staðbundna þætti á landsbyggðinni, þegar landshlutaþáttunum var hætt, þá runnu ekki auglýsingar til staðbundnu prentmiðlanna þar í kjölfarið. Þannig að ég held að það sé bara alls ekkert hægt að gefa sér í þeim efnum og þess vegna sé einmitt svo mikilvægt að við séum að styrkja einkareknu fjölmiðlana en einmitt síðan að skoða það að skattleggja hinar erlendu efnisveitur því að það eru þær sem eru að soga til sín fjármagnið. Engir fjölmiðlar á Íslandi væru bættari ef fjármunir sem núna renna til RÚV myndu fara úr landi til erlendra efnisveitna.