151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég er glaður yfir því að hann skyldi sjá að sér. Ég vil þá nota tækifærið til að ánýja það sem ég sagði áðan, að við þurfum að fá þetta mál til nefndar. Þar sem hv. þm. Óli Björn Kárason situr í allsherjar- og menntamálanefnd held ég að það hljóti að vera sameiginlegt áhugamál okkar beggja að fá það í gegn.

Mig langar til að biðja hv. þingmann um að reifa aftur það sem ég reyndar nefndi í ræðu um það að menn bíti ekki í höndina sem fæðir þá, ekki nema í stuttan tíma, og hvort hann sé, eins og hann er reyndar búinn að drepa á, ekki sammála mér í því að þetta svokallaða frjálsræði sem menn eru að reyna að varðveita með þessu frumvarpi — að frumvarpið nái ekki þeim árangri að varðveita þetta frjálsræði meðan verið er að stefna að því að gera fjölmiðla háða ríkisfé. Mig langar til að biðja hv. þingmann um að drepa aðeins á þetta mál aftur, takk.