151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[21:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þetta mál er í raun eftirstöðvarnar af því sem hefur verið kallað NPA-málið og var afgreitt héðan úr þinginu síðla árs 2017 en við þá afgreiðslu stóðu út af réttindi starfsfólks sem starfar við NPA-þjónustu, einkum og sér í lagi hvað varðar vinnutímalengd og vinnuvaktir. Málið hefur síðan verið í ferli á milli aðila, þ.e. þeirra sem njóta þjónustunnar og þeirra sem greiða fyrir hana að stærstum hluta, þ.e. sveitarfélaganna og félagsmálaráðuneytisins.

Það er skemmst frá því að segja, herra forseti, að þessi kimi af málinu er ekki að koma hingað inn í fyrsta sinn. Hér er framlenging á bráðabirgðaákvæði þar sem enn hefur ekki gengið að klára samningagerð. Því er í frumvarpinu lagt til að framlengd verði til ársloka 2021 heimild til að víkja frá ákvæðum 53. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins, þannig að hvíldartími verði styttri hjá starfsfólki sem veitir einstaklingum þjónustu á grundvelli 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Eins og þingmönnum er vafalaust í fersku minni hefur þetta nokkrum sinnum áður verið rætt hérna. Sá sem hér stendur ræddi þetta við hæstv. ráðherra í andsvörum þegar málið kom hingað inn. Ljóst er að ekki hefur tekist að klára þetta mál með þeim hætti sem æskilegt hefði verið. Það kom fram við meðferð málsins að nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins er að fjalla um vinnutíma starfsmanna í NPA-þjónustu með það að markmiði að koma á framtíðarlausn um skipulag þjónustunnar. Sú vinna mun vera flókin enda eru ýmsir hagsmunir sem þarf að meta, þ.e. bæði hagsmunir þeirra sem veita þjónustuna og þeirra sem þiggja hana.

Í nefndinni komu fram þær upplýsingar að vinna þessi er í tengslum við heildarendurskoðun á lögunum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem stefnt er að því að ljúka næsta vetur. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að vinnu við samningagerð vegna vinnutíma starfsmanna í NPA-þjónustu verði hraðað þannig að ekki þurfi að koma til frekari framlenginga á ákvæðinu.

Fyrrnefnd heimild var í bráðabirgðaákvæði IX í lögunum sem er fallið úr gildi þar sem síðasta framlenging þess var út árið 2020. Telur meiri hlutinn því rétt að taka ákvæðið upp að nýju í heild. Ef ætla má að vinna við tillögur að lausn tefjist beinir meiri hlutinn því til ráðherra að leggja fram frumvarp til framlengingar áður en gildistími ákvæðisins rennur út svo að ekki verði óvissa um gildi þeirra samninga um notendastýrða persónulega aðstoð sem gerðir eru. Meiri hlutinn telur af þeim sökum farsælast að framlengingin gildi til 1. apríl 2022.

Það er kannski rétt, herra forseti, að útskýra aðeins hvers vegna það er lagt fram fremur en að láta þetta aðeins gilda til áramóta eins og frumvarpið gerði ráð fyrir. Það er m.a. vegna þess að eins og þingmönnum er kunnugt um munu fara fram kosningar næsta haust og óvíst að það verði einhvers konar forgangsatriði í ráðuneytinu að koma með frumvarp fyrir áramót þegar þingið verður hér að störfum við að afgreiða fjárlög og fleiri aðkallandi mál sem eru dagsetningarmál á áramótum. Því leggur nefndin til að bráðabirgðaákvæðið framlengist til 1. apríl á næsta ári, m.a. til að fyrirbyggja að það komi aftur þessi lokaði gluggi á ákvæðið. Eins og mönnum hlýtur að vera kunnugt um hafa starfsmenn í þessari þjónustu á þeim tíma sem er liðinn frá síðustu áramótum verið að vinna þessa vinnu án þess að bráðabirgðaákvæði sé í rauninni í gildi.

Meiri hlutinn ræddi það einnig ítarlega og nefndin er raunar algjörlega sammála um að gríðarlega mikilvægt er að þessu máli og þessu bráðabirgðaákvæði verði endanlega lokað og sú vinna sem þarf að vinna til að hnýta enda varðandi þessa mikilvægu þjónustu verði kláruð þannig að þeir sem njóta þjónustunnar búi við það öryggi sem viðeigandi umbúnaður að lögum tryggir þeim. Og ekki síður að starfsfólkið sem vinnur þessa vinnu búi við þau réttindi sem aðrir aðilar á vinnumarkaði búa við og að búið sé um það með kjarasamningum en ekki bráðabirgðaákvæðum í lögum.

Undir álitið skrifa hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, framsögumaður, Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.