151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.

719. mál
[22:18]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Flutningsmenn eru sá sem hér stendur og hv. þingmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson. Tillagan hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skapa svigrúm fyrir gerð Súðavíkurganga á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi í núgildandi samgönguáætlun 2020–2034. Gert verði ráð fyrir göngunum í jarðgangaáætlun sem unnið er að. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um framvinduna fyrir árslok 2021.“

Í greinargerð með tillögunni segir að þingsályktunartillaga sama efnis hafi áður verið lögð fram af Örnu Láru Jónsdóttur, varaþingmanni Samfylkingarinnar, og sé nú endurflutt. Þetta var á 150. löggjafarþingi.

Með tillögunni er lagt til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skapi svigrúm til þess að Súðavíkurgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi verði skilgreind sem verkleg framkvæmd á samgönguáætlun 2020–2034 og að þegar verði hafnar ítarlegar rannsóknir og undirbúningur að gerð jarðganganna.

Gildandi samgönguáætlun nær til næstu 15 ára og er uppfærð og endurskoðuð á grunni þeirrar áætlunar sem þegar hefur verið samþykkt á Alþingi. Með drögum að samgönguáætlun eru einnig kynnt drög að uppfærðri aðgerðaáætlun til næstu fimm ára, 2020–2024, sem var samþykkt í lok júní 2020. Þar er ekki að finna heildstæða áætlun um jarðgangagerð á Íslandi og því ekki gert ráð fyrir Súðavíkurgöngum. Önnur brýn jarðgangaverkefni bíða úrvinnslu bæði á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum. Alþingi samþykkti 12. október 2016 þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018, á 145. löggjafarþingi, þess efnis að veita skyldi fjármagn til að hefja undirbúning og rannsóknir á Súðavíkurgöngum árin 2017 og 2018 en ekkert hefur gerst enn sem komið er.

Gerð Súðavíkurganga er afar brýn út frá byggðasjónarmiðum en ekki síður út frá öryggissjónarmiðum. Á Súðavíkurhlíð eru skilgreindir 22 snjóflóðafarvegir og eru fjölmörg dæmi um snjóflóð og grjóthrun í hlíðinni. Vegagerðin og Snjóflóðasetur Veðurstofunnar fylgjast vel með öllum hættumerkjum og hafa gefið út viðvaranir og lokað hlíðinni ef svo ber undir. Árið 2018 féllu sem dæmi ríflega 60 flóð niður á veg samkvæmt talningu Vegagerðarinnar en bent skal á að fjölmargar viðvaranir og lokanir eru gefnar út á hverjum vetri til að hindra slys á fólki. Íbúar á svæðinu eru stöðugt uggandi um öryggi sitt og hafa nú bundist samtökunum „Dauðans alvara, Súðavíkurhlíð-Kirkjubólshlíð“ þar sem skipst er á skoðunum og leiðbeiningar og varúðartilkynningar sendar til meðlima. Þarna er samhugurinn í lagi. Fyrirhugað er að þetta verði vettvangur sem enn frekar þrýsti á um úrbætur.

Yfir vetrarmánuðina er vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp helsta samgönguæð íbúa á norðanverðum Vestfjörðum. Nokkrar úttektir hafa verið gerðar á síðustu árum um mögulegar úrbætur á leiðinni um Súðavíkurhlíð. Hér er einkum vísað í Greinargerð vinnuhóps um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur frá nóvember 2002 auk Greinargerðar um mat á hættu vegna snjóflóða og grjóthruns á vegum milli Súðavíkur og Bolungarvíkur. Þær eru samdar af Veðurstofu Íslands og Hörpu Grímsdóttur og eru í fullu gildi.

Í niðurlagi síðarnefndu greinargerðarinnar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Niðurstaða þessarar skýrslu er því sú að fyrir þá sem ferðast daglega um Óshlíð eða Súðavíkurhlíð er snjóflóða- og grjóthrunshættan nálægt því að tvöfalda árlegar dánarlíkur í umferðinni miðað við meðaldánarlíkur Íslendinga í umferðinni. Það verður að teljast óviðunandi miðað við forsendurnar sem lýst er í kafla 1.5 um ásættanlega áhættu vegna ofanflóða og grjóthruns á vegi.“

Að vísu eru orðin úrelt orðin um umferðina um Óshlíð því að við höfum eignast ágæt göng, Bolungavíkurgöng. Það má fullyrða að vegur um Súðavíkurhlíð er einn af hættulegustu þjóðvegum landsins, ef ekki sá hættulegasti.

Norðanverðir Vestfirðir eru eitt atvinnu- og búsetusvæði. Samkvæmt vinnusóknarkönnun sem Byggðastofnun lét gera árið 2017 sækja tæp 30% vinnandi fólks í Súðavík vinnu til Ísafjarðar og þetta hlutfall fer stöðugt vaxandi. Þó nokkur fyrirtæki eru með starfsemi í Súðavík og á öðrum þéttbýliskjörnum á norðanverðum Vestfjörðum. Íbúar Súðavíkur sækja flesta sína grunnþjónustu, til að mynda heilbrigðisþjónustu, til Ísafjarðar.

Þá má geta þess að sveitarstjórnir Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar hafa nýlega sent stjórnvöldum sameiginlega álitsgerð þar sem niðurstaðan er sú að þessi framkvæmd eigi að vera forgangsverkefni á svæðinu hvað varðar samgöngubætur.

Líkt og farið hefur verið yfir hér að framan myndu Súðarvíkurgöng, jarðgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar, fela í sér brýna samgöngubót fyrir bæði íbúa Súðavíkur og íbúa á norðanverðum Vestfjörðum, sem og aðra sem fara þar um. Það á ekki síst við yfir vetrartímann þegar vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er ein helsta samgönguleið vegfarenda.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þessari þingsályktunartillögu. Jarðgöng eru orðin líklega tíu talsins á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni og spanna tæplega 60 km af þjóðvegakerfi okkar. Þau eru auðvitað frá ýmsum tíma og hafa nánast verið byggð lengst af lýðveldistímans. Landsmenn allir og stjórnvöld gera stöðugt meiri kröfur um þægindi í akstri, styttingu á leiðum og um leið öryggi á ferðum sínum. Svo er umhverfisþátturinn veigamikið atriði sem verður æ áleitnara. Styttri ferðir, greiðari leiðir, minni mengun.

Nýjustu göngin sem Vestfirðingar fagna ákaflega eru Dýrafjarðargöng. Vegaframkvæmdir þeim tengdar standa yfir. En á sunnanverðum Vestfjörðum hrópa enn verkefni í samgöngumálum á stjórnvöld. Heimamenn á svæðinu telja að mikilvægast fyrir byggðirnar í Vestur-Barðastrandarsýslu sé að grafa göng undir Hálfdan og Mikladal. Samtals teljast það vera um 8,9 km af göngum. Til samanburðar er bent á að göng undir Breiðadals- og Botnsheiði, sem eru nærri aldarfjórðungsgömul, eru 9,1 km. Eftir að þeim áfanga er náð á sunnanverðum Vestfjörðum er ekki ólíklegt að skoða þurfi göng um Klettsháls. Eftir það eru leiðir orðnar býsna greiðar á Vestfjörðum.

Herra forseti. Á ferðum okkar um landið verðum við vegfarendur þess áskynja að aðstæður eru æði misjafnar í jarðgöngum, bæði merkingar, lýsingar og ýmis öryggisbúnaður, t.d. slökkvitæki og neyðarsímar, þótt allt virðist þetta nú vera til staðar, sérstaklega í nýju göngunum. Varðandi aðstæður með tilliti til öryggismála í hverjum og einum jarðgöngum virðast þær vera nokkuð misjafnar. Í fyrirspurn fyrir nákvæmlega ári síðan mat samgönguráðherra það svo að aðstæður væru allgóðar í jarðgöngum á Íslandi og stöðugt væri unnið að endurbótum. Þó verður að gæta sanngirni. Göngin eru auðvitað frá misjöfnum tímum þar sem kröfur voru með öðrum hætti en þær e.t.v. eru í dag. Kröfur í jarðgöngum eru alltaf að vaxa.

Herra forseti. Eins og ég nefndi eru kröfur varðandi hönnun jarðganga stöðugt að breytast og tækninni fleygir fram. Það kann að vera erfitt að verða við öllum nýjum og uppfærðum kröfum í mörgum eldri göngum sem hönnuð voru á þeim tíma eftir stöðlum á byggingartímanum. Við þekkjum ýmis dæmi um einbreið göng sem eru oft undir miklu álagi vegna vaxandi umferðar.

Herra forseti. Elstu göngin á Íslandi eru frá 1948. Það eru Arnarnesgöngin í Álftafirði sem við fjöllum nú um. Úr Álftafirði þurfa að koma ný göng yfir í Skutulsfjörð. Það eru ekki ný göng sem reist voru 1948. Þau eru hins vegar ágæt og að aka þar um tekur stutta stund. Þeim sem þjást af innilokunarkennd er óhætt því þau eru bara 30 m löng. Göngin sem voru reist á þeim tíma voru ekki óumdeilt mannvirki frekar en ýmis mannanna verk en þau kostuðu á þeim tíma 750.000 kr. Það þóttu miklir peningar og drógu blóðið úr mönnum varðandi aðrar framkvæmdir um langa hríð. Tekist var á um það hvort skynsamlegt væri að gera þetta frekar en að laga vegina báðum megin við en þeir voru í mjög bágbornu ástandi eins og vegir hafa almennt verið til skamms tíma á Vestfjörðum þó að mikið sé að batna og stórir áfangar séu að nást núna á allra síðustu misserum.

Herra forseti. Rétt í lokin er kannski eðlilegt að minnast á Bolungarvíkurgöng því að þau eru mikilvæg. Þau voru opnuð 2010, skipta byggðarlagið gríðarlega miklu máli og opna fyrir aukið samstarf sveitarfélaganna á svæðinu eða jafnvel sameiningu. Góðar samgöngur eru ein af forsendum þess. Göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar ættu að geta greitt fyrir því að þarna verði til stærra og öflugra samfélag, jafnvel þriggja sveitarfélaga sem nú eru sjálfstæð. Eða að menn hugsi enn lengra og í enn frekari sameiningar eins og við erum að fjalla um í þinginu um þessar mundir.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa þetta öllu lengra en ég vonast til þess að þessi þingsályktunartillaga fái að ganga til umhverfis- og samgöngunefndar og fái þar þóknanlega umfjöllun og vonandi greiða leið alla leið.