151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get tekið heils hugar undir það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir var að segja um stríðið og átökin í Ísrael og Palestínu. Ég ætlaði að fjalla um allt annað mál. Ég ætlaði að fjalla um húsnæðismál af því að húsnæðismál eru mannréttindi. Það gleymist stundum í umræðu um vaxtahækkanir og vaxtalækkanir, verðtryggð og óverðtryggð lán og kaupenda- og seljendamarkað að öllum er nauðsynlegt að hafa skjól yfir höfuðið. Mér finnst því eðlilegt að spyrja hvort það ætti yfir höfuð að fara með húsnæði sem fjárfestingar hvar gróðasjónarmið ráða fyrst og fremst för, hvort það sé réttlátt að fjársterkir aðilar kaupi upp húsnæði á brunaútsölu, sitji síðan á því án þess einu sinni jafnvel að leigja það út, skapi skort og selji síðan með miklum gróða; hvort húsnæðisverð eitt og sér ætti að ráða því hvar á landinu fólk velur að búa og hvort við viljum ekki vera með manneskjulegri húsnæðismarkað þar sem þarfir fólks ráða för en ekki markaðarins og fjármagnsins.

Við höfum sannarlega fært okkur í átt að mannúðlegri húsnæðismarkaði síðastliðin ár með uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu, breytingum á húsaleigulögum og hlutdeildarlánum. Á næsta kjörtímabili verðum við að halda þeirri vegferð áfram. Við getum t.d. velt því upp hvort mætti fara að fordæmi þjóða eins og Dana og Norðmanna og setja skilyrði um búsetuskyldu í húsnæði til að tryggja að fjársterkir aðilar sanki ekki að sér húsnæði án þess að það sé leigt út. Við eigum að setja aukinn kraft í uppbyggingu almennra íbúða og skapa burðugt kerfi þeirra um land allt. Jafnvel mætti skoða að rýmka tekjuskilyrðin enn meira þegar kerfið leyfir það. En það skiptir líka máli hverjir sitja við stjórnvölinn. Við í VG munum svo sannarlega beita okkur fyrir því að skapa húsnæðismarkað sem tryggir öllum mannsæmandi húsnæði með samfélagslegar lausnir að leiðarljósi og þá grundvallarhugsun að húsnæði sé mannréttindi.