151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

íþyngjandi regluverk.

[13:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í ágreining við hv. þingmann sem vill leggja áherslu á að setja ekki óþarfa kvaðir á fyrirtæki og fólk. Ég er bara sammála því áherslumáli hans og skal fyrstur manna viðurkenna að mér finnst við — Alþingi, Stjórnarráðið — ekki hafa verið góð í að stemma stigu við þeirri þróun, þeirri sjálfvirkni nýrra krafna sem við höfum staðið frammi fyrir. Þegar við hv. þingmaður sátum saman í ríkisstjórn vildum við, og settum þá reglu, að fyrir hverja nýja kvöð sem kæmi þyrfti önnur að fara út. En að framkvæma þá stefnu reynist oft þrautin þyngri. Það er stórmál að samhæfa allt Stjórnarráðið og síðan þingið í samtali við Stjórnarráðið í gegnum frumvörp og reglugerðir þannig að einhver geti sagt: Aha, hér komu fleiri nýjar kvaðir en þær sem aflétt var, þannig að við getum verið með einhvers konar bókhald, einhvers konar mælaborð, einhvers konar uppgjör, reikningshald um kvaðir á fólk og fyrirtæki. Það væri mjög vel til fundið ef við myndum þróa það, settum peninga og fjármagn í það kannski.