151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:14]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ræðu sem ég var nú ekki alveg sammála í öllu. Ég hygg þó að ég og hv. þingmaður deilum því að þykja lítið til ohf.-rekstrarfyrirkomulagsins koma. Ég skil ekki það fyrirkomulag og átta mig ekki á því hverju það bætir við starfsemi Ríkisútvarpsins. Við erum reyndar að ræða hér um stuðning við einkarekna fjölmiðla en ræða hv. þingmanns snerist að mestu leyti ef ekki öllu um Ríkisútvarpið, og ég deili ekki sýn hans á það. Ég treysti eins og flestallir aðrir landsmenn, eins og tölur hafa sýnt, fréttaflutningi fréttastofu Ríkisútvarpsins og tel ekki ástæðu til að ætla að annarleg sjónarmið ráði för við að afla frétta og segja fréttir og hef svo sem ekki mikið meira um það að segja.

Mig langaði bara að koma hér upp vegna þess að mig langar aðeins að leiðrétta þetta með að Þjóðviljinn hafi lokað klukkan þrjú. Ég var starfsmaður Þjóðviljans þegar ég var krakki og vann með skóla sem prófarkalesari á kvöldin, og þar var jafnan blaðamaður á vakt, á kvöldvakt. Starfsmenn blaðsins og blaðamenn skiptust á að taka þessar vaktir og þeir voru svo sannarlega duglegir að hringja í lögguna og hringja hingað og þangað ef það vantaði að fylla upp í eitthvert pláss. Ég vildi bara koma þessari leiðréttingu á framfæri við hv. þingmann og vona að hann misvirði það ekki við mig.