151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég var að vona að maður gæti hafið ræðu sína hér við 3. umr. á jákvæðari nótum en raunin er. Það er auðvitað alveg ótrúleg staða sem er uppi. Bara í gær var þessu máli vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til meðferðar milli 2. og 3. umr. og einhvern veginn látið að því liggja að meiningin væri að skoða einhverja hluti, skoða einhverja þætti. Ég kom sérstaklega inn á það í ræðu minni um atkvæðagreiðsluna í gær að þó að fulltrúi Miðflokksins, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, hefði verið sá sem óskaði eftir því að málið færi til nefndar milli 2. og 3. umr. hefði það legið í orðum fleiri þingmanna að það væri víðtækari ósk um það en bara frá okkur í Miðflokknum. Hvað gerist síðan?

Hæstv. forseti. Það væri óskaplega gott ef formaður hv. allsherjar- og menntamálanefndar væri hér í salnum til að bregðast við þeirri gagnrýni sem ég set fram á meðferð hans á málinu. Ég gef mér að hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Páll Magnússon, heyri þetta. En það er þó ekki víst því að enginn áhugi virðist vera á því að taka málið til efnislegrar umræðu. Málið var á nokkrum mínútum tekið á dagskrá og út af henni aftur og sent úr nefndinni án álits, fyrir utan það að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson leggur hér fram minnihlutaálit vegna málsins. Það var ekki bara ósk fulltrúa Miðflokksins að málið kæmi til efnislegrar umræðu milli 2. og 3. umr. Fyrir tveimur dögum lögðu þingmenn, m.a. hv. þingmenn Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, sem nú situr á forsetastóli, fram og mæltu fyrir fyrirtaksfrumvarpi og ég held að flestir þingmenn hafi staðið í þeirri trú að það yrði rætt í einhverju samhengi við frumvarpið sem hér liggur fyrir í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Hvað gerist? Það er akkúrat ekkert sem gerist. Það var greinilega enginn vilji til staðar. Þetta gengur allt út á eitthvert leikrit hjá þeim flokkum sem nú mynda ríkisstjórn, að komast með öllum ráðum í gegnum 2. umr. til að komast í 3. umr. þar sem ræðutími er takmarkaður.

Merkin sem send eru með þessu eru auðvitað þau að hvetja þá sem efasemdir hafa um málið til að halda sem fastast í 2. umr. Ef það er þannig sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja fara í gegnum þennan síðasta mánuð í þingstörfum þessa kjörtímabils, þá verði þeim að góðu. Þetta er ekki boðlegt og þetta gerist trekk í trekk. Höfð eru uppi fögur orð um að það skuli sko aldeilis taka mál til efnislegrar og djúprar umræðu milli 2. og 3. umr. til þess að leiða ágreining í jörð. Hvað gerist síðan? Mál eru tekin inn fyrst og fremst til að sýnast og sennilega aldrei sem nú, í þessu máli. Ég vil halda þessari gagnrýni minni á störf allsherjar- og menntamálanefndar til haga. Þetta er svo sem ágætt ef það var aldrei meiningin að gera nokkurn skapaðan hlut með málið milli 2. og 3. umr., ef það var ekki meiningin að skoða nokkurn skapaðan hlut og ef það var alls ekki meiningin að ræða heildstætt þau þrjú mál sem liggja fyrir um þetta sama efni, málið sem hér um ræðir, mál hv. þingmanna Óla Björns Kárasonar og Brynjars Níelssonar, jafn prýðisgott og það er, og mál sem við í þingflokki Miðflokksins lögðum fram hér fyrr í vetur, hvar ég er fyrsti flutningsmaður, sem gengur út á það að veita almenningi heimild til að ráðstafa hluta útvarpsgjaldsins til þess miðils sem fólk kýs. Hvað var svona erfitt við það að ræða þessi þrjú mál efnislega samhliða? Ekki neitt. Ofan á það bætist að sérstök þingmannanefnd hefur það hlutverk að rýna lagaumgjörð Ríkisútvarpsins. Í þeirri þingmannanefnd eru þrír þingmenn stjórnarflokkanna og hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Páll Magnússon, er þar. Silja Dögg Gunnarsdóttir er einn þessara þriggja þingmanna og formaður þessarar þingmannanefndar er hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Þegar þessi hópur var settur saman voru hópnum sett tímamörk. Tímamörkin voru 31. mars. Nú er seinni hluti maímánaðar runninn upp.

Hvaða sýndarmennska er þetta? Þetta virðist allt ganga út á það hjá hæstv. menntamálaráðherra að kaupa sig aðeins framar í tíma með hverjum leiknum sem leikinn er án þess að vinna neitt efnislega í málinu. Þessi hópur, að því er ég best veit, hefur ekki skilað nokkrum sköpuðum hlut. Það er engin sýn, engar vangaveltur, engar tillögur á þeim tveimur mánuðum eða þar um bil frá því að hópurinn átti að klára sig af þessu. Svo sáu þessir tveir nefndarmenn sem komu hingað upp í ræðu um atkvæðagreiðsluna í gær, hv. þingmenn Páll Magnússon og Silja Dögg Gunnarsdóttir, ástæðu til að nefna þessa þingmannanefnd eins og þar væri eitthvað mjög gott og framsækið á ferðinni. Nú kemur hv. þm. Páll Magnússon hér í dyragættina og ég gef mér að hann hafi hlustað á þá gagnrýni sem ég hef sett fram á þá meðferð sem málið fékk í allsherjar- og menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. En svo að ég komi aftur að þessum þingmannahópi sem hér var nefndur, og hv. þm. Páll Magnússon nefndi sérstaklega í ræðu sinni í gær að hafi verið að störfum: Hvers vegna var ekki eitthvað úr þeirri vinnu tekið inn í þetta mál? Margir tala um fílinn í stofunni í þessu máli, sem er yfirburðastaða Ríkisútvarpsins, en það er ekki nefnt einu orði. Þarna voru hv. nefndarmenn í fullum færum til að setja fram ígrundaða skoðun á þessu máli.

Við erum í öðrum hring af einhvers lags Covid-útfærslu hvað varðar stuðning við einkarekna fjölmiðla. Það vantar ekki tillögurnar. Það vantar ekki hugmyndirnar, þær liggja allar fyrir og hafa legið fyrir lengi. Menn gera bara ekkert með þær og það er það sem ég er að gagnrýna. Það eru ótal margar góðar hugmyndir sem liggja fyrir en eina lausnin sem menn virðast vera tilbúnir að klára er að ríkisvæða einkamiðlana líka. Ef menn telja að það sé góð leið til að jafna þessa mjög svo ójöfnu stöðu á milli einkamiðla á markaði og Ríkisútvarpsins, með sína 7 milljarða til ráðstöfunar á hverju ári, þá hreinlega trúi ég því ekki að það sé afstaða hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, ég hreinlega trúi því ekki. En ef svo er þá er bara ágætt að það liggi fyrir.

Ég ætla að nota þessar síðustu mínútur í ræðu minni til að minna á ýmsar af þeim tillögum sem nefndar hafa verið til að bæta þessa stöðu á markaði, draga úr þeirri yfirburðastöðu sem Ríkisútvarpið hefur á fjölmiðlamarkaði og gera einkamiðlunum lífið bærilegra. Þó ekki væri nema það væri það ágætisbyrjun. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram sem eru almenns eðlis. Þær snúa m.a. að skattalegum breytingum á rekstrarumhverfi miðlanna, mögulega eitthvað sem tengist virðisaukaskatti á tekjustreymi einkareknu miðlanna. Það er hægt að gera aðlaganir þannig að tryggingagjaldið leggist ekki jafn þungt á ritstjórnarlega starfsemi miðlanna og nú er. Það er auðvitað líka hægt að einfalda það regluverk sem fjölmiðlunum er gert að starfa innan. Það þarf að vinna þau verk sem fjölmiðlanefnd fær í þessum miðlum. Það verður ekki bara unnið í hjáverkum þegar ekkert annað er að gera. Það eru margháttaðar aðgerðir sem er hægt að grípa til til að einfalda rekstrarumhverfi miðlanna og gera það minna tyrfið á sama tíma og hægt er að ganga til aðgerða í gegnum skattkerfið sem gagnast þessum fyrirtækjum jafnt og væri miklu heilbrigðara en að setja alla þessa miðla á ríkisjötuna með einum eða öðrum hætti.

Hluti umræðunnar sem átti sér stað í gær var með þeim hætti að varla telst boðlegt. Ég vísa þá helst til framgöngu Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, sem var á þann veg að það er ekki hægt að kalla það neitt annað en að verða sér til skammar. Þar voru hinar ýmsu dylgjur látnar fjúka án þess að nokkur sérstakur rökstuðningur fylgdi með.

Til viðbótar við þær tillögur sem komið hafa fram, og þær eru fleiri, liggja tvö mál fyrir. Það er mál hv. þingmanna Óla Björns Kárasonar og Brynjars Níelssonar, sem er prýðisgott, um að draga Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði í ákveðnum skrefum. Síðan er það tillaga okkar í þingflokki Miðflokksins sem gengur út á það, sem ég nefndi áðan, að gjaldendum verði gert heimilt að ráðstafa hluta útvarpsgjaldsins til þess miðils sem þeim hugnast. Ef eitthvað verður raunveruleg mæling á vilja fólks til að styðja við fjölmiðla þá er það það. Ef staða Ríkisútvarpsins er sú sem flaggað er í skoðanakönnunum og með ýmsum hætti munu flestir væntanlega vilja ráðstafa sínu útvarpsgjaldi að fullu til Ríkisútvarpsins áfram. Ég verð að viðurkenna að ég er efins um að það verði niðurstaðan, fái fólk þetta frelsi. Það eru auðvitað flokkar hér á þingi sem maður hefði talið að myndu taka hugmyndinni fagnandi, frelsisflokkar, en kannski er það meira í orði en á borði á köflum.

Ég vil undir lok þessarar ræðu minnar, í 3. umr., minna á að þetta er tímabundin aðgerð sem hér er gengið til. Hún er illa útfærð að mínu mati. Hún er þeirrar gerðar að hún leysir ekki vandann. Þetta er plástur á svöðusár sem verður aldrei neitt annað en það. Auðvitað hef ég fullan skilning á því að miðlarnir vilji gjarnan sjá þetta mál klárast. Auðvitað mun þetta mál klárast en ég gagnrýni það að við séum komin hér á síðasta mánuð þingstarfa á þessu kjörtímabili, á fjórða ári, en kjörtímabilin hafa ekki öll verið svo löng undanfarið, og enn sé það óklárað. Við erum komin á fjórða ár og það er búið að gapa um nauðsyn þess að laga rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla allt þetta kjörtímabil og við erum enn hér í einhverjum tímabundnum bráðaaðgerðum, Covid-aðgerðum. Hvers lags verklag er þetta? Það bendir ekki til þess að nein meining sé á bak við þann fagurgala sem reglulega heyrist um mikilvægi þess að styðja við einkarekna miðla og laga rekstrarumhverfi þeirra. Þetta frumvarp gerir það ekki, bara alls ekki. Vissulega er um tímabundna innspýtingu fjármuna að ræða en það getur ekki verið varanleg lausn. Ég hvet því þingheim allan til þess að láta ekki staðar numið hér heldur forma leið að því að rekstrarumhverfi einkarekinna miðla verði stórlega bætt frá því sem nú er með því að laga skattalegt umhverfi þessara fyrirtækja um leið og við reynum að einfalda það regluverk sem miðlarnir starfa innan.