151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

viðbrögð ráðherra við áróðursherferð Samherja.

[13:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að spyrja ráðherra um neina lensku. Ég var að spyrja um tilgreint dæmi sem liggur fyrir um afskipti, um óeðlileg afskipti Samherja af blaðamönnum, stéttarfélögum, prófkjöri, samfélagssáttmálanum, eins og sagt hefur verið. Ég vitna aftur í orð hæstv. ráðherra úr Kastljóssviðtalinu forðum þar sem hann sagði einnig, með leyfi forseta:

„Hvað yrði sagt ef ráðherra sjávarútvegsmála hefði yfir höfuð enga skoðun á því að þetta stóra fyrirtæki sem allir hafa taugar til, ef hann reyndi ekki að ýta á það að menn svöruðu ekki þeim ávæningi sem borinn yrði á þá og væri í gangi?“

Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti: Hvað eigum við að segja? Hvað eigum við að segja um sjávarútvegsráðherra sem hefur ekkert um þetta risavaxna mál að segja sökum æpandi vanhæfis? Finnst hæstv. ráðherra virkilega ekkert athugavert við það að hann sitji í þessu embætti á meðan Samherji stundar sínar fordæmalausu árásir á alla sem voga sér að gagnrýna framgöngu fyrirtækisins? Setur það embættið ekki niður að hafa þar mann sem getur ekki beitt sér, getur ekki tjáð sig með neinum markverðum hætti um framgöngu fyrirtækisins?