151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:01]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Samkvæmt mælingum treysta um 80% þjóðarinnar heilbrigðiskerfinu, um 72% treysta lögreglunni en um 34% treysta stofnuninni Alþingi, helmingi fleiri en treysta t.d. borgarstjórn Reykjavíkur. En hér sitjum við, 63 einstaklingar, og allir alþingismenn bera ábyrgð, bæði meiri og minni hluti. Aðgangur að upplýsingum og gagnsæi eru hér lykilatriði til að komast, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði, úr vítahring vantrausts.

Mig langar að segja, eftir að hafa tekið sæti á Alþingi sem varamaður síðan 2013, að við þurfum að efla okkur í að vera ósammála en halda í heilindi og vináttu í senn. Það hefur dvínað. Ég sakna þess á þessum átta árum sem ég hef haft hér viðkomu. Vantraust skapar pólitískan óstöðugleika. Hér tala þingmenn í þessum ræðustól stundum eins og það sé allt í kaldakoli. Þannig er það ekki, þótt vissulega eigum við og þurfum að gera miklu betur í sumum málum. Það er hárrétt. Traust verður að ávinna og það tekur tíma. Ég held að með Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra, verkstjóra, séum við á réttri leið. Á Íslandi er pólitískur stöðugleiki. Það er mikils virði.

Það grefur undan góðum stjórnarháttum ef við hugum ekki að ásýnd stjórnmála og stjórnsýslu. Gerum betur, rísum upp með reisn. Ásýndin verður til hér þar sem við stöndum í þessum ræðustól og birtumst þjóðinni. Við erum að fást við menningu og ásýnd, ekki bara kerfi, en getur verið að stjórnmálamenningin leiði til vantrausts? Við þurfum að hugsa inn á við en ekki aðeins undrast viðbrögð annarra úti í samfélaginu við hegðun okkar, kjörinna fulltrúa og embættismanna. Við erum sjálf okkar eigin viðfangsefni og úrlausnarefni. Að líta í eigin barm og inn á við er hverjum manni hollt. (Forseti hringir.) Í framvinduskýrslu um málið segir að brýnt sé að stjórnvöld skilgreini og setji sér eigin markmið um opinber heilindi. (Forseti hringir.) Við þurfum að eyða öllum grunsemdum um sviksemi og óheiðarleika. Þetta veltur á okkur sjálfum. Ef það hefst ekki hér þá gerist það ekki.