151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[15:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um framlengingu á nýtingu séreignarsparnaðar. Ég fékk fyrirspurn frá einstaklingi sem er á örorkubótum, missti vinnuna en á í séreignarsparnaði og vildi halda áfram að geta nýtt sér það úrræði en getur það ekki, var neitað um það. Ég er líka að hugsa um atvinnulausa, þá sem hafa lent í atvinnuleysi. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þetta hefði verið rætt í nefndinni. Þetta eru nefnilega mánaðarlegar greiðslur inn á höfuðstólinn. Gætu þessir einstaklingar a.m.k. ekki nýtt sér þessa upphæð áfram á hverju ári eins og er gert ráð fyrir í frumvarpinu? Þar kemur fram að ekki hafi eins margir nýtt sér ákvæðið og var reiknað með. Það er bara spurning um sanngirni að ef fólk vill reyna að nýta þetta en getur það ekki vegna þess að það er komið í þær aðstæður að hafa misst vinnuna eða er í öðrum aðstæðum út af örorku eða einhverju að ekki sé klippt á þennan möguleika. Þetta skiptir máli, sérstaklega því að þarna er um skattfrelsi að ræða. Ég spyr um sanngirnina í því að þarna sé bara undir hvort maður er í vinnu eða ekki. Líka út frá Covid vegna þess að maður getur líka hafa misst vinnu vegna þess að Covid er í gangi. Þá er það í sjálfu sér enn þá ósanngjarnara að ekki sé tekið tillit til þess miðað við allt sem er búið að reyna að gera til að bæta málin. Ég er að spá í hvort ekki væri hægt að taka þetta inn í nefnd milli umræðna og reyna a.m.k. að tékka eitthvað á þessu.