151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég geti svarað því til að þetta hafi ekki komið sérstaklega til umræðu í nefndinni við umfjöllun á þessu máli. Ef ég skil hv. þingmann rétt er hann að vísa í það að fólk sem er raunverulega ekki að greiða í viðbótarlífeyrissparnað að svo stöddu fengi að nýta höfuðstólinn sem það á í viðbótarlífeyri upp í greiðslur á fasteign. Ég minnist þess ekki að sú umræða hafi farið fram. Þar erum við kannski komin í að taka umræðu um það sem þeir sem hafa verið að gagnrýna þetta hafa bent á, einmitt að viðbótarlífeyrir sé til að eiga þegar maður kemst á lífeyri. Við hin sem höfum talað fyrir þessu höfum þá talað fyrir því að það að eiga fasteign sé líka ákveðinn lífeyrir. Það er einmitt þess vegna sem þak er á þessu. Það er ekki fyrir þá sem hafa hæstu tekjurnar og greiða ofboðslega mikið í viðbótarlífeyrissparnað, þeir geta ekki notað allar þessar greiðslur í að greiða niður fasteignalán sitt, heldur er þakið um 500.000 kr. á almanaksári á einstakling og 750.000 kr. á hjón. Þá spurning hvort þeir sem eru af einhverjum ástæðum í þeirri stöðu að greiða ekki í viðbótarlífeyrissparnað í ákveðinn tíma, hvort sem það kann að vera vegna veikinda eða atvinnuleysis eða annars, gengju þá um of á séreignina sína. Ég hygg að allir geti óskað eftir því að mál fari inn í nefnd milli umræðna og vel sé hægt að verða við því. En þetta eru fyrstu viðbrögð mín við þessari vangaveltu um hvaða áhrif það kynni að hafa.