151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[15:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við verðum að átta okkur á því að þarna eru einstaklingar eins og örorkulífeyrisþegar og atvinnulausir og aðrir sem hafa ekki einu sinni getað nýtt sér þetta. Þeir eru jafnvel búnir að kaupa sína fyrstu íbúð en hafa ekki getað nýtt sér skattleysið við kaupin vegna þess að það var ekki inni á þeim tíma sem þeir voru á vinnumarkaði. Þeir eiga kannski einhvern sjóð og eru bara að reyna að fá þessa skattaívilnun sem þeir geta einhverra hluta vegna ekki fengið vegna þess að þeir lenda einhvers staðar á milli skips og bryggju í þessu máli. Það segir sig sjálft að ef tilgangurinn er að hjálpa og þeir einstaklingar sem eru kannski verst settir og eiga íbúðarhúsnæði og vilja nýta sér þennan skattafslátt — þá hlýtur það að vera hægt. Ég myndi segja að þarna undir væru ekki neinar rosalegar upphæðir. Það væri ekkert svakalegt mál að leyfa þessum einstaklingum að fá þetta tækifæri. Ég myndi telja að það væri alveg sjálfsagt. Ég veit ekki hversu margir myndu vilja nýta sér þetta en ég veit a.m.k. um einn aðila sem hefur bent á að hann hefði viljað nýta sér þetta. Þá hefðu það verið 500.000 kr. fyrir þennan aðila ef hann er einstaklingur, fyrir hjón eru það 750.000, og hann gæti bara fengið að nýta það yfir árið ef hann á svo mikið. Svo er meira að segja spurning hvort þessir einstaklingar eiga meira eða minna en þeir hafa þá alla vega tækifæri til að fá að vera með í þessu dæmi. Mér finnst það einhvern veginn bara réttlátt vegna þess að þarna er einstaklingur að biðja um að fá að vera með og fá þessa skattaívilnun sem er verið að láta fjöldann fá en einhverra hluta vegna er viðkomandi skilinn eftir vegna þess að hann lendir í þeirri erfiðu aðstöðu að missa vinnu og er ekki að fá þetta mánaðarlega. Það er bara það sem skeður.