151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

störf þingsins.

[13:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ísland er frjálst land, land þar sem fólki er frjálst að gera það sem það vill svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Á Íslandi ríkir málfrelsi, skoðanafrelsi og trúfrelsi og við verðum ávallt að standa vörð um þetta frelsi. Hið opinbera þarf að stíga niður með hógværð og jafnræði að leiðarljósi. Fjölmiðlar eiga að vera beittir og veita aðhald. Þeir eiga að segja satt og rétt frá. Þeir eiga að vera gagnrýnir og þeir eiga að vera opnir fyrir gagnrýni. Fyrirtæki þurfa að hlíta sömu reglum. Öll fyrirtæki sem ætla að eiga sér framtíð þurfa að huga að samfélagslegri ábyrgð sinni. Þau þurfa að axla ábyrgð og hafa uppbyggileg áhrif á umhverfi sitt. Stuðningur við íþróttafélög og menningu er góður og mikilvægur, en það er ekki nóg. Fyrirtæki sem taka samfélagslega ábyrgð alvarlega virða lýðræðið og beita sér ekki gegn því. Fyrirtæki sem ekki huga að samfélagslegri ábyrgð eiga sér ekki framtíð.