151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir samvinnuna í nefndinni og sérstaklega fyrir þessa prýðisræðu. Mér fannst hv. þingmaður draga vel fram hve verkefnin eru fjölmörg. Ég held að allur heimurinn stefni að því að komast út úr þessari Covid-kreppu en ég hygg að ef hún hefði ekki skollið á hefði heimurinn þrátt fyrir það horft í grænt hagkerfi. Hv. þingmaður kom inn á loftslags- og umhverfismálin, hringrásarhagkerfið, græna matvælaframleiðslu. En hv. þingmaður gerði ójöfnuðinn líka að umtalsefni sínu. Eitt af því sem hefur komið fram í ábendingum alþjóðastofnana er líka að það er ekki bara grænt stafrænt hagkerfi sem heimurinn er að stefna að heldur að allir verði með og að dregið sé úr ójöfnuði, enginn skilinn eftir í þessari kreppu. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni þegar kemur að því.

Hv. þingmaður kom líka inn á áherslur á velferðarkerfið, fjárfestingar í innviðum, en ég er svolítið hugsi yfir því að hv. þingmaður sé smeykur við að aðlögunin sem boðuð er hér sé of hröð. Aðlögunin er annaðhvort á útgjaldahlið eða tekjuhlið og þýðir þá hærri skatta. Á sama tíma og við hækkum skatta og ætlum okkur að vaxa út úr kreppunni og skapa atvinnu þá mun að öðru jöfnu draga úr vexti. Ég spyr: (Forseti hringir.) Hvernig sér hv. þingmaður þetta jafnvægi fyrir sér, þegar hann vill tryggja að við verðum ekki með of hraða aðlögun en engu að síður fjármagna allar þessar aðgerðir sem þýðir hærri skatta?