151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:45]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu framsögu fyrir nefndaráliti sem, eins og hans er von og vísa, byggist á reynslu af starfi í fjárlaganefnd til nokkurra ára. Ég ætla að grípa niður í fyrri hluta ræðu hans þar sem hann ræddi horfur í atvinnumálum. Ég veit að við erum í þessari stöðu í dag vegna þess að ástandið hefur á engan hátt verið venjulegt. Þegar við þurfum að nota gögn sem eru fyrst og fremst framreikningur þá þurfum við líka að aðskilja einhverja tilfinningu um hvernig ástandið muni verða. Formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Willum Þór Þórsson, gerði það að einhverju leyti að umtalsefni í framsögu sinni hér áðan.

Mig langar í fyrra andsvari mínu við hv. þingmann að ræða þetta út frá því að í þessu ástandi sem erfitt er að greina — við erum að sjá hlýna í orðsins fyllstu merkingu, líka veðurfarslega, og birta til — þá trúum við því að viðspyrnan geti verið kröftug og mikil. Ég ætla aðeins að fjalla um það í ræðu minni á eftir.

Andsvar mitt til hv. þingmanns er að ég held að hv. þingmaður verði að viðurkenna að okkur hefur tekist bærilega vel og bara mjög vel að bregðast við þeim aðstæðum sem hafa verið í efnahagslífinu. Við höfum með aðgerðum okkar minnkað það högg sem blasti við okkur fyrir rúmu ári síðan. Getur hv. þingmaður ekki sagt að með þau gögn sem við höfum sé raunverulega ekki hægt að rýna betur inn í framtíðina og að tölurnar, m.a. um atvinnuleysið, beri það með sér? Getur hv. þingmaður ekki líka sagt að þrátt fyrir allt hafi okkur tekist ágætlega til?