151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:45]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að spyrja mig þessara spurninga og ég vil sérstaklega þakka honum fyrir það að kalla þessa ræðu sígræna. Mér þykir mjög vænt um það því að það er nú þannig með suma hluti að það þarf að endurtaka þá og endurtaka þangað til að hljómgrunnur fæst. Ég er líka sammála því sem fram kom hjá hv. þingmanni að um margt höfum við verið sammála þegar við höfum rætt þessi mál.

Ég vil byrja á þessu með patentlausnina. Ég lít ekki á það sem ég geri mjög oft að umtalsefni, þ.e. gjaldmiðilinn og krónuna, sem patentlausn, en hins vegar er það lausn sem snertir mjög mörg svið íslensks samfélags. Menn vilja gjarnan — ég er ekki að ætla hv. þingmanni það, síður en svo — smætta þessi Evrópumál niður í: Þið viljið bara fara undir valdið í Brussel. — En þetta snertir allt samfélagið.

Varðandi hitt sem hv. þingmaður spurði um, með tímalínur og hvað þurfi að gera til að breyta, held ég t.d. að það væri mjög vænlegt skref hjá kjósendum að sjá til þess að sú ríkisstjórn sem nú situr nái ekki vopnum sínum, haldi ekki áfram. Það sem ég fór yfir sýnir að það er ekki mjög vænlegt. En tímaplanið eins og varðandi evruna held ég að geti alveg verið skemmra. Ef menn vinda sér í það og tala um þessa tengingu — ég geri mér grein fyrir að aðild að Evrópusambandinu tekur lengri tíma. Og síðan er það bara yfirlýsingin um að gera það, að við getum strax byrjað að haga okkur eins og við séum komnir þarna inn. En síðan er svo fjölmargt sem hægt er að gera, eins og varðandi nýsköpunarumhverfið, að menn sjái aðeins lengra fram í tímann o.s.frv.