151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

lífeyrir almannatrygginga og neysluviðmið.

[13:11]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Umrædd skýrsla var rædd á ágætu málþingi sem Öryrkjabandalag Íslands stóð fyrir í gær og það er margt athyglisvert í þeirri skýrslu og mörg leiðarljós sem við getum nýtt í þeirri vinnu sem er í gangi og hefur verið í gangi og munum gera það. Þegar hv. þingmaður spyr að því hvers vegna ekki hafi verið gert meira í málefnum örorkulífeyrisþega þegar kemur að því að hækka grunnframfærslu og hækka fjárframlög til þessa málaflokks þá veit hv. þingmaður það jafn vel og sá sem hér stendur að þegar kemur að því að bæta kjör þessa hóps er grundvallaratriði að við náum að gera ákveðnar kerfisbreytingar á kerfinu líka. Hann hefur sjálfur lýst því, og ég tek undir með honum með það, að kerfið er orðið ægiflókið og innbyrðis skerðingar á milli einstakra flokka o.s.frv. eru þannig að þær eru illskiljanlegar. Þess vegna höfum við lagt áherslu á endurskoðun á kerfinu samhliða því sem bætt er í.

En mér finnst það líka hljóma hjá hv. þingmanni eins og ekkert hafi verið gert á þessu kjörtímabili og það er einfaldlega rangt vegna þess að núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur bætt fjármagni inn í kerfið. Við höfum sett inn 4 milljarða í nýju fjármagni. Við höfum sett fjármagn í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, tannlæknakostnað, skattkerfisbreytingar; allt sem miðar að því að ná til þessa hóps. En samhliða því sem við bætum síðan inn í nýtt kerfi, og það var ástæðan fyrir kerfisbreytingunni, þurfum við að ná að draga úr nýgengi örorku. Það þarf að skoða allar þessar tölur í því samhengi. Við erum kannski að ná aðeins árangri í því núna með þeirri aukningu sem hefur verið í endurhæfingu en ekki í nýgengi örorku (Forseti hringir.) vegna þess að það er mjög mikið af fólki í íslensku samfélagi sem við viljum geta aðstoðað til að halda sér áfram á vinnumarkaði. (Forseti hringir.) Það er forsendan fyrir því líka að við getum hækkað hjá þeim sem því miður þurfa að nýta sér öryggisnet samfélagsins í gegnum örorkulífeyri.